Salah vill framlengja við Liverpool - Al-Nassr vill fá Kovacic - Man Utd og Newcastle enn með í baráttunni um Rabiot
   lau 20. júlí 2024 15:42
Ívan Guðjón Baldursson
PSG hótar að lögsækja eiganda Lyon og Crystal Palace
Mynd: Getty Images
Franska stórveldið Paris Saint-Germain hefur hótað að lögsækja John Textor, eiganda Lyon og Crystal Palace meðal annars, vegna ummæla sem hann lét falla í vikunni.

PSG telur þetta ekki vera í fyrsta sinn sem Textor kemur með ummæli um PSG sem félagið telur bæði vera ærumeiðandi og skaðleg fyrir ímynd sína.

Auk þess að eiga Lyon og Palace þá er Textor meirihlutaeigandi í Botafogo í Brasilíu og var hann í viðtali við brasilíska miðilinn Globo í vikunni.

Þar var hann spurður út í Lyon og frönsku deildina og talaði um hversu ósanngjörn samkeppnin væri í Frakklandi, þar sem hann segir að félög séu að berjast við heila þjóð en ekki bara einfaldan eiganda fótboltafélags á leikmannamarkaðinum.

Hann er ósáttur með eignarhaldið á PSG og telur félagið vera fullkomið dæmi um hvernig eitt fótboltafélag getur eytt fúlgum fjárs og farið á skjön við fjármálareglur UEFA og frönsku deildarinnar án refsingar.

Eigendur PSG eru með sterk tengsl við ríkisstjórnina í Katar, en PSG neitar öllum ásökunum um brot á fjármálareglum.

„Ummæli Textor eru ósönn og látin falla til þess að æsa upp í fólki. Það er mikil óvirðing í þessum ummælum og þau eiga sér enga stoð í raunveruleikanum," segir meðal annars í bréfi frá Victoriano Melero, aðalritara PSG.

Þar gagnrýnir Melero þessi ummæli Textor og bendir á að hann hafi sjálfur brotið fjármálareglur UEFA og franska fótboltasambandsins sem eigandi Lyon.

Melero svaraði ummælum Textor með ýmsum röksemdafærslum og hótaði honum svo lögsókn í Frakklandi, á sama tíma og hann skaut á Textor fyrir þá lögsókn sem hann glímir við í Brasilíu þessa dagana. Sú lögsókn er vegna skaðlegra ummæla Textor þar sem hann heldur uppi stórfelldum ásökunum um hagræðingu á fótboltaleikjum gegn ýmsum aðilum í brasilíska fótboltaheiminum.
Athugasemdir
banner
banner