Natasha mætt aftur eftir erfið meiðsli
Natasha Anasi skoraði á dögunum sigurmark Brann gegn St. Pölten í Meistaradeild Evrópu. Natasha hefur verið að koma til baka eftir erfið meiðsli en hún spilaði sinn fyrsta leik fyrir norska félagið í byrjun þessa mánaðar.
Það er mjög jákvætt að hún sé mætt aftur til leiks en landsliðsþjálfarinn, Þorsteinn Halldórsson, var spurður út í endurkomu hennar á dögunum.
„Ég hef ekkert rætt við Natöshu nýlega. Það er gaman að sjá að hún er komin í gang," sagði Þorsteinn.
„Hún er hægt og rólega að koma sér inn í þetta hjá Brann. Hún sýndi sín einkenni í síðasta leik þegar hún skoraði með skalla eftir hornspyrnu. Það er einkenni hennar; inn í teig andstæðinganna er hún er gríðarlega sterk."
„Það er jákvætt fyrir okkur að leikmenn séu að koma til baka úr meiðslum. Þá hefur maður fleiri möguleika. Hún er nýkomin aftur af stað, en hún á eftir að styrkjast og ég held að hún eigi eftir að taka næsta tímabil með trompi."
Látum drauma okkar rætast
Eiginmaður Natöshu, körfuboltaþjálfarinn Rúnar Ingi Erlingsson, skrifaði virkilega flottan pistil á Facebook á dögunum þar sem hann fjallaði um endurkomu þessarar öflugu fótboltakonu.
„Þegar Natasha fékk boð um að ganga til liðs við Brann töluðum við mikið um að það er mikilvægt að láta drauma sína rætast þegar tækifærin gefast. Hennar draumur var að spila á stærra sviði í atvinnumannaumhverfi og eiga möguleika á að spila í riðlakeppni Meistaradeildarinnar. Það var ansi stór ákvörðun fyrir okkur fjölskylduna að semja við Brann og Natasha flutti út til Bergen í janúar og við fjölskyldan áfram heima á Íslandi. Við látum þetta ganga upp til þess að láta drauma okkar rætast," skrifaði Rúnar.
„Svo var það símtalið 26. janúar, daginn fyrir fyrsta æfingaleik sem að breytti algjörlega dæminu. Slitin hásin, grátur, svekkelsi og meiri grátur. Draumurinn farinn hefðu margir sagt. Það var nógu mikil áskorun að vera úti í Bergen frá okkur fjölskyldunni að upplifa drauminn en að vera í burtu og ekki einu sinni getað spilað fótbolta var eitthvað sem var ekki búið að hugsa út í. Síðan hafa liðið tæpir tíu mánuðir, byrjað á að kenna löppinni að labba aftur og svo tók við endalaus sjúkraþjálfun, óteljandi lyftingatímar, milljón klukkutímar á Facetime, meiri sjúkraþjálfun og nokkrar flugferðir fram og til baka. Það er eiginlega magnað að fá að fylgjast með þessu ferli í beinni, bæði þegar það var jákvæðni á hinum endanum og líka þegar það var stutt í bugun. En alltaf hélt hún áfram. Við erum jú að elta drauma hérna," skrifar Rúnar.
„Látum drauma okkar rætast. Ég gæti ekki beðið um betri fyrirmynd fyrir börnin okkar og vona að þau læri sem mest af hugarfari hennar og hvernig maður tekst á við mótlæti."
Athugasemdir