John Murtough, yfirmaður fótboltamála hjá Manchester United, mun klárlega missa starf sitt þegar Sir Jim Ratcliffe gengur frá kaupum á 25 prósent hlut í félaginu.
Þetta kemur fram á staðarmiðlinum Manchester Evening News í dag.
Ratcliffe, ríkasti maður Bretlands, er nálægt því að kaupa 25 prósent hlut í Man Utd fyrir 1,3 milljarða punda. Markmið Ratcliffe er að taka stjórn á félaginu með tímanum en hann ætlar að byrja á því að kaupa fjórðungshlut. Með því mun hann eignast nokkur sæti í stjórn félagsins.
Í kauptilboði sínu er talið að Ratcliffe geri kröfu um að fá að stjórna fótboltatengdum ákvörðunum félagsins upp að vissu marki.
Það hefur nú þegar verið staðfest að Richard Arnold mun hætta sem framkvæmdastjóri United og það er fullyrt í dag að Murtough muni einnig yfirgefa félagið. Murtough tók við sem yfirmaður fótboltamála hjá United árið 2021.
Dougie Freedman, yfirmaður fótboltamála hjá Crystal Palace, hefur verið sterklega orðaður við starfið þegar Ratcliffe kaupir sinn hlut. Paolo Maldini, goðsögn hjá AC Milan, hefur einnig verið nefndur til sögunnar.
Athugasemdir