fös 21. janúar 2022 11:30
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
„Ég ber ábyrgð á því sem gerðist og ég tek gagnrýninni"
Mynd: EPA
Thomas Partey kom sá og tapaði í gær er hann kom inn á sem varamaður í leik Arsenal og Liverpool í enska deildabikarnum.

Partey kom inn á þegar stundarfjórðungur lifði leiks og tókst að krækja í tvö gul spjöld og þar með rautt. Arsenal verður því án hans í næsta deildarleik en staðan var orðin 0-2 fyrir Liverpool þegar Partey komst í svörtu bók dómarans.

Miðjumaðurinn var nýkominn frá Afríkukeppninni þar sem Gana féll óvænt úr leik í riðlakeppninni. Hann var varla lentur á Englandi þegar hann mætti inn á í leiknum mikilvæga.

Sjá einnig:
Mætti eitthvað illa stemmdur af Afríkumótinu

„Ég er ekki ánægður með allt sem gerðist í gær og í Afríkukeppninni. En ég veit að það verður erfiðisvinna að breyta hlutunum og ég ætla halda áfram að leggja hart að mér. Ég ber ábyrgð á því sem gerðist og ég tek gagnrýninni. Ég á að vera nægilega gáfaður til að fara ekki í þetta návígi á gulu spjaldi. En svona er minn leikstíll, ég vil berjast um alla bolta."

„Ég elska þetta félag og elska þjóð mína þrátt fyrir að hlutirnir gerist ekki alltaf eins og ég vil að þeir gerist. Ég mun halda áfram að leggja mig allan fram fyrir liðið þegar ég er á vellinum því þetta er líf mitt og þetta er það sem ég vel mér að gera,"
sagði Thomas Partey.

Arsenal tekur á móti botnliði Burnley á sunnudag.
Athugasemdir
banner
banner
banner