Napoli í viðræðum um Garnacho - Villa hafnaði tilboði West Ham í Duran - Vlahovic orðaður við Chelsea
   þri 21. janúar 2025 10:30
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Viðtal
Sá langleikjahæsti heldur áfram - „Betra en að sitja heima og sjá eftir því"
Vann Íslandsmeistaratitilinn í þriðja sinn síðasta haust. 'Þessi þétta frammistaða skilaði okkur þessum góða sigri gegn þessu frábæra Víkingsliði'
Vann Íslandsmeistaratitilinn í þriðja sinn síðasta haust. 'Þessi þétta frammistaða skilaði okkur þessum góða sigri gegn þessu frábæra Víkingsliði'
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
396 KSÍ leikir og 18 mörk. Ofan á það bætast við 39, já 39, Evrópuleikir!
396 KSÍ leikir og 18 mörk. Ofan á það bætast við 39, já 39, Evrópuleikir!
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Fyrsta tímabilið með meistaraflokki var 2009.
Fyrsta tímabilið með meistaraflokki var 2009.
Mynd: Jónína Guðbjörg Guðbjartsdóttir
'Persónulega er ég alltaf skítstressaður og sé kannski svörtustu myndina frekar en hina.'
'Persónulega er ég alltaf skítstressaður og sé kannski svörtustu myndina frekar en hina.'
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Kvittar hér undir eftir rútuferðina frægu í Víkina.
Kvittar hér undir eftir rútuferðina frægu í Víkina.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
'Ef það er ennþá í manni þá held ég að það sé betra að taka annað tímabil heldur en að sitja heima og sjá eftir því'
'Ef það er ennþá í manni þá held ég að það sé betra að taka annað tímabil heldur en að sitja heima og sjá eftir því'
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Arnór Sveinn og Andri Rafn fagna. Arnór Sveinn er í dag aðstoðarþjálfari Breiðabliks.
Arnór Sveinn og Andri Rafn fagna. Arnór Sveinn er í dag aðstoðarþjálfari Breiðabliks.
Mynd: Fótbolti.net - Magnús Már Einarsson
Í byrjun þessa árs tilkynnti Andri Rafn Yeoman á samfélagsmiðlum Breiðabliks að hann myndi taka slaginn áfram; myndi spila með liðinu á komandi tímabili. Andri verður 33 ára á árinu og er á leið inn í sitt 17. tímabil með meistaraflokki Breiðabliks og er langleikjahæsti leikmaður í sögu félagsins.

Kitlaði mikið að fara aftur af stað
„Eftir að maður fór að eldast í þessum fótboltaheimi þá hef ég viljað taka eitt tímabil í einu, taka stöðuna eftir hvert og eitt. Á síðustu árum hef ég ekki séð ástæðu til þess að flýta mér að taka ákvörðun, finnst það óþarfi að taka mögulega einhverja ákvörðun sem maður sér eftir. Ég tók mér tíma eftir síðasta tímabil, það var margt að melta, geggjað tímabil. Við komumst á endanum að þessari niðurstöðu," segir Andri.

„Það kitlar mikið að fara aftur af stað og ef það er ennþá í manni þá held ég að það sé betra að taka annað tímabil heldur en að sitja heima og sjá eftir því."

Er ekki líka alveg smá þægilegt að geta verið laus við æfingar í desember?

„Það skemmir ekkert," segir Andri og hlær. „Maður verður svo sem ekkert Íslandsmeistari í desember, vinnur engan titil nema kannski Bose-mótið - við skulum samt ekki gera lítið úr því."

„Ég er orðinn öllu vanur, hef einhver ár verið erlendis fram að vori. Þegar maður eldist, kann inn á sig, þá fer að verða aðeins einfaldara að geta stjórnað álaginu og komið sér inn í hlutina á nokkuð stuttum tíma til að vera samkeppnishæfur."


Brosir þegar hann hugsar til baka
Andri varð Íslandsmeistari í þriðja sinn á síðasta ári. Hvernig horfirðu til baka?

„Þetta var stórkostlegt tímabil, langt og lærdómsríkt. Það voru miklar breytingar, bæði fyrir tímabilið og í gegnum undirbúningstímabilið og inn í vorið. Við byrjuðum seinna en vanalega, en þetta var langhlaup eins og öll tímabil í fótbolta eru. Við gengum í gegnum í alls konar tímabil yfir allt tímabilið, það gekk ýmislegt á og við þroskuðumst og lærðum heilan helling. Þetta var svakaleg vegferð þegar við horfðum til baka. Svo lítur maður til baka á árin á undan sem einhvers konar aðdraganda að þessu tímabili 2024. Það stekkur á mann bros þegar maður hugsar til baka."

Voru ennþá sama Blikaliðið
Það varð þjálfarabreyting haustið 2023. Hvernig sér Andri muninn á Halldóri Árnasyni og Óskari Hrafni Þorvaldssyni forvera hans?

„Þetta eru tveir mjög ólíkir karakterar að vissu leyti, en breytingin var ekkert svakaleg fótboltalega séð. Það var það góða við breytingarnar, þetta var rökrétt framhald af því sem áður var, með einhverri aðlögun og fínpússun út af breytingunni á þjálfara og svo leikmannabreytingum. Ég held að við höfum lært það þegar leið á tímabilið að við værum ennþá sama Blikaliðið og það á endanum kom okkur aftur á sporið eftir verri leiki um mitt tímabil. Við áttuðum okkur á því að þó að það hefðu orðið breytingar að þá var það ennþá það sama sem gerði okkur að góðu liði og skilaði okkur stigum og velgengni eins og árin á undan."

Væri annars örugglega búinn að missa vitið
Hvenær hugsaðir þú að Breiðablik gæti orðið Íslandsmeistari?

„Ég veit það ekki, maður hugsar þetta af og til en heilt yfir er maður ekkert mikið að pæla í þessu. Um mitt tímabil var kafli þar sem við söfnuðum fáum stigum og spilamennskan var ekki góð, þá hugsaði ég að við yrðum örugglega ekki Íslandsmeistarar, en svo kemur bara leikur og þú gerir þitt besta til að vinna. Þegar þú nærð að tengja saman sigra þá færist augnablikið með þér, skriðþunginn tekur þig áfram og stigin safnast. Þegar komið er í síðustu leikina ertu svo meðvitaður um stöðuna og hvað þarf að gerast svo að þú eigir séns í lokaleiknum. Maður hugsar svona óbeint um þetta, er ekkert með þetta á heilanum, annars væri maður örugglega löngu búinn að missa vitið."

Sér svörtustu myndina frekar en hina
Hvernig er úrslitaleikurinn gegn Víkingi í minningunni?

„Bara frábær. Leikurinn geggjaður, geggjaður viðburður, við náðum að nýta aðdragandann á réttan hátt. Við náðum að nýta okkur pressuna sem hafði verið á okkur áður sem hvata til að spila þennan staka leik. Við þurftum að vinna til að verða Íslandsmeistarar, þetta gat ekki verið einfaldara. Viðburðurinn sjálfur var stórkostlegur, allt undir, mikil spenna og við náðum að vera einbeittir allan tímann og halda spennustiginu nokkuð góðu. Þessi þétta frammistaða skilaði okkur þessum góða sigri gegn þessu frábæra Víkingsliði."

„Ég fann svipaða tilfinningu og fyrir alla leiki, maður hugsar einhvern veginn svo margt. Hugsunin að maður geti tapað kemur upp, það er bara mannlegt hjá manni. Þó að maður ætli að reyna hunsa það eitthvað þá veit maður alltaf að það eru líkur á því í fótboltaleik að maður tapi, geri jafntefli eða vinni. Þannig er það bara. Persónulega er ég alltaf skítstressaður og sé kannski svörtustu myndina frekar en hina. En þegar ég er búinn að hita upp og gera þessu sömu hluti og ég er búinn að gera milljón sinnum og leikurinn er flautaður á, þá er ekki tími til þess að velta einhverju svona fyrir sér. Það er fegurðin við þetta. Maður hunsar ekkert þegar þessi mannlega hugsun kemur upp, maður verður bara að leyfa henni að koma og reyna nota hana á réttan hátt."


Lítið spáð í eigin hagsmunum
Andri hefur spilað meira sem bakvörður síðustu ár heldur en á miðjunni.

„Það er bara hrikalega gaman. Í gegnum tíðina hef ég lítið verið bundinn við það að vera í einhverri stöðu eða spáð í eigin hagsmunum varðandi að vera einhvers konar leikmaður. Eftir að Dóri og Óskar komu inn þá breyttist dýnamíkin í liðinu og hlutverk. Þessi bakvarðastaða hentar mér bara hrikalega vel og margir af mínum helstu kostum nýtast vel þar; sérstaklega einn á einn varnarleikur, staðsetningar á velli og yfirsýn. Mér finnst gaman að fá að leysa þessa stöðu, gaman að fá að prófa eitthvað nýtt á þessu stigi ferilsins og þurfa aðeins að hugsa; hvað getur maður gert öðruvísi og betur. Það er mjög hollt og hefur verið mjög gaman."

Ekki rætt en er frekar augljóst
Þegar það er rætt um hvort þú ætlir að vera áfram, er þá rætt um hvað Blikar ætla sér að gera á komandi tímabili, eða er það bara borðleggjandi að það eigi að verja titilinn?

„Það hefur ekkert verið rætt, en ég held að það sé frekar augljóst. Hugsunin undanfarin ár hefur rosalega lítið verið á eitthvað endatakmark varðandi einhverja titla og svoleiðis. Þetta hefur snúist um að mæta á hverjum degi og halda fagmennsku. gæðum og standard. Það leiðir okkur í einhverja vegferð. Við ætlum bara að gera okkar besta alltaf. Með þennan hóp og umgjörð þá er augljóst að ef hlutirnir ganga upp þá gerast mjög góðir hlutir," segir Andri.
Athugasemdir
banner
banner