Virgil van Dijk er mjög ánægður með nýja samninginn sinn hjá verðandi Englandsmeisturum Liverpool en segist ekki vita hvort bakvörðurinn Trent Alexander-Arnold muni einnig framlengja við félagið.
Van Dijk og Mohamed Salah hefðu runnið út á samningi í sumar en þeim tókst báðum að semja við Liverpool. Það hefur Trent þó ekki enn gert og er hann sterklega orðaður við spænska stórveldið Real Madrid.
„Við erum í draumastöðu í deildinni, þegar tímabilið fór af stað þá bjóst ég alls ekki við að vera í svona góðri stöðu á þessum tímapunkti. Ég hlakka mikið til að hampa titlinum með liðsfélögunum og stjóranum. Arne Slot hefur verið gjörsamlega frábær síðan hann tók við síðasta sumar, hann og allt starfsteymið hans sem á risastórt hrós skilið," segir Van Dijk sem var svo spurður út í Alexander-Arnold, sem skoraði sigurmarkið gegn Leicester um helgina.
„Þetta er eitthvað sem Trent þarf að ákveða sjálfur ásamt vinum sínum og fjölskyldu. Þetta er mjög stór ákvörðun fyrir hann en eins og staðan er í dag þá er hann leikmaður Liverpool og við þurfum á honum að halda. Hann er virkilega mikilvægur fyrir okkur, hann hefur verið stórkostlegur fyrir félagið allt síðan ég kom hingað fyrst en við vitum ekki hvað er að fara að gerast. Við tölum ekki mikið um svona hluti á milli okkar, við verðum bara að bíða og sjá. Sviðsljósið er nú þegar á honum og öll pressan sem því fylgir, okkur finnst óþarfi að auka pressuna á honum. Stundum gleymir almenningur að fótboltamenn eru líka fólk."
Van Dijk skrifaði sjálfur undir nýjan tveggja ára samning í síðustu viku.
„Ég hef heyrt svo mikið í kringum þessi samningsmál í fjölmiðlum. Ég heyrði að ég ætlaði ekki að skrifa undir og að ég væri í viðræðum við fullt af öðrum félögum, en það er ekki rétt. Ég var bara í viðræðum við eitt félag og er mjög stoltur að vera áfram hjá Liverpool næstu tvö árin."
Athugasemdir