Salah vill framlengja við Liverpool - Al-Nassr vill fá Kovacic - Man Utd og Newcastle enn með í baráttunni um Rabiot
banner
   sun 21. júlí 2024 21:13
Brynjar Ingi Erluson
Besta deildin: Blikar þremur stigum frá toppnum eftir sigur á KR - Stjarnan kláraði Fylki í lokin
Benjamin Stokke skoraði tvö skallamörk fyrir Blika
Benjamin Stokke skoraði tvö skallamörk fyrir Blika
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Luke Rae skoraði tvö fyrir KR-inga
Luke Rae skoraði tvö fyrir KR-inga
Mynd: Fótbolti.net - Eyjólfur Garðarsson
Emil Atlason kom inn af bekknum og skoraði
Emil Atlason kom inn af bekknum og skoraði
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Helgi Fróði gerði seinna mark Stjörnunnar
Helgi Fróði gerði seinna mark Stjörnunnar
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Breiðablik er komið upp í annað sæti Bestu deildar karla eftir að hafa unnið KR, 4-2, í stórskemmtilegum leik á Kópavogsvelli í kvöld. Stjarnan vann botnlið Fylkis, 2-0, en bæði mörkin komu undir lok leiks á Samsung-vellinum í Garðabæ.

Tímabilið hefur ekki verið KR-ingum gjöfult. Liðið hefur ekki fagnað sigri síðan í lok maí og þarf liðið að bíða áfram eftir því.

Blikarnir mættu öflugir til leiks. Kristinn Steindórsson skoraði fyrsta markið á 22. mínútu. Andri Rafn Yeoman sendi Aron Bjarnason í gegn. Hann var kominn einn gegn Guy Smit en ákvað að leggja boltann til hliðar á Kristinn sem lagði boltann í netið.

Heimamenn tvöfölduðu forystuna fimmtán mínútum síðar. Kristófer Ingi Kristinsson fór illa með Jón Arnar Sigurðsson áður en hann kom boltanum fyrir. KR-ingar hreinsuðu boltanum frá, en þó ekki lengra en á Viktor Karl EInarsson sem sendi á Höskuld Gunnlaugsson. Sá er heitur þessa dagana en hann skoraði frábært mark annan leikinn í röð og kom KR-ingum í tveggja marka forystu.

Á 42. mínútu skoraði hinn stóri og stæðilegi Benjamin Stokke þriðja markið með skalla eftir fyrirgjöf Arons. Mark sem virtist hafa gert út um leikinn en KR-ingar náðu að bíta frá sér.

Þeir tóku miðjusparkið, boltinn langt fram völlinn á Viktor Örn Margeirsson sem náði ekki að skalla boltann frá. Luke Rae kom á ferðinni og setti boltann framhjá Antoni Ar Einarssyni og í netið.

Staðan í hálfleik 3-1 fyrir Blikum sem náðu þó að koma sér aftur í þægilega forystu snemma. Stokke stangaði þá boltanum í netið í annað sinn í leiknum en í þetta sinn eftir hornspyrnu Höskuldar.

Blikar fengu færin til að gera endanlega út um leikinn en Kristófer Ingi brást bogalistin í bæði skiptin.

Gestirnir minnkuðu muninn í 4-2 á 70. mínútu. Eyþór Aron Wöhler kom boltanum inn á Rae sem gerði annað mark sitt í leiknum og hótaði hann þrennunni þremur mínútum síðar en skot hans framhjá markinu.

Blikar höfðu 4-2 sigur og eru komnir upp í 2. sæti deildarinnar með 30 stig, þremur stigum frá toppliði Víkings, en KR-ingar áfram í 9. sæti með 14 stig.

Emil og Helgi kláruðu Fylki í lokin

Stjarnan vann baráttusigur á Fylki, 2-0, á Samsungvellinum í Garðabæ.

Jökull Elísabetarson, þjálfari Stjörnunnar, gerði nokkrar breytingar á liðinu fyrir leikinn og vildi þar hvíla nokkra góða menn fyrir Evrópuævintýrið sem heldur áfram í vikunni.

Stjörnumenn voru sterkari aðilin í fyrri hálfleiknum. Helgi Fróði Ingason átti tilraun eftir stungusendingu Hilmars Árna Halldórssonar en boltinn framhjá markinu.

Það skapaðist smá vandræðagangur í teig Stjörnumanna á 37. mínútu og komst Guðmundur Tyrfingsson allt í einu einn á móti Árna Snæ Ólafssyni í markinu, en Árni gerði vel að loka á hann og koma hættunni frá.

Emil Atlason, markahæsti maður Stjörnunnar, og Örvar Eggertsson komu inn af bekknum í síðari hálfleik og breytti það öllu.

Emil skoraði á 80. mínútu leiksins með skalla eftir hornspyrnu Hilmars. Emil hljóp á nærstöngina og stangaði hann í slá og inn áður en Helgi Fróði tryggði sigurinn fimm mínútum síðar eftir stungusendingu Örvars á milli hafsenta. Helgi lyfti síðan boltanum yfir Ólaf Kristófer Helgason í markinu.

Lokatölur 2-0 í Garðabæ. Stjörnumenn eru komnir í efri hluta deildarinnar, nánar tiltekið 6. sæti með 20 stig á meðan Fylkir er áfram á botninum með 11 stig.

Úrslit og markaskorarar:

Breiðablik 4 - 2 KR
1-0 Kristinn Steindórsson ('22 )
2-0 Höskuldur Gunnlaugsson ('37 )
3-0 Benjamin Stokke ('42 )
3-1 Luke Morgan Conrad Rae ('43 )
4-1 Benjamin Stokke ('47 )
4-2 Luke Morgan Conrad Rae ('70 )
Lestu um leikinn

Stjarnan 2 - 0 Fylkir
1-0 Emil Atlason ('80 )
2-0 Helgi Fróði Ingason ('85 )
Lestu um leikinn
Besta-deild karla
Lið L U J T Mörk mun Stig
1.    Breiðablik 21 14 4 3 48 - 25 +23 46
2.    Víkingur R. 20 13 4 3 47 - 23 +24 43
3.    Valur 21 10 5 6 49 - 32 +17 35
4.    FH 21 9 5 7 36 - 35 +1 32
5.    ÍA 21 9 4 8 40 - 31 +9 31
6.    Stjarnan 21 9 4 8 39 - 35 +4 31
7.    KA 21 7 6 8 32 - 37 -5 27
8.    Fram 21 7 5 9 28 - 29 -1 26
9.    KR 20 5 6 9 34 - 39 -5 21
10.    HK 21 6 2 13 23 - 51 -28 20
11.    Vestri 21 4 6 11 22 - 42 -20 18
12.    Fylkir 21 4 5 12 26 - 45 -19 17
Athugasemdir
banner
banner