Ronaldo vill fá Casemiro til Sádi-Arabíu - Man Utd gæti gert lánstilboð í Kolo Muani - Dortmund hefur áhuga á Rashford
   þri 21. september 2021 17:27
Elvar Geir Magnússon
Kjartan Henry í þriggja leikja bann
Þórður Ingason fær sömu refsingu
Kjartan Henry Finnbogason.
Kjartan Henry Finnbogason.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Aganefnd KSÍ dæmdi í dag Kjartan Henry Finnbogason, sóknarmann KR, í þriggja leikja bann.

Hann fékk rautt spjald í látunum gegn Víkingi, sjálfkrafa fékk hann einn leik í bann en aganefndin hefur þyngt dóminn og bætt við tveimur leikjum. Kjartan mun því byrja í banni á Íslandsmótinu 2022 en aðeins ein umferð er eftir af þessu tímabili.

Sjá einnig:
Sjáðu atvikið: Kjartan Henry virtist kýla Þórð
Kjartan lýsir atburðarásinni

Kjartan Henry missti stjórn á sér þegar allt sauð upp úr í lokin á leik KR og Víkings á laugardaginn og sló Þórð Ingason, varamarkvörð Víkings, með krepptum hnefa. Kjartan hefur beðist afsökunar á hegðun sinni opinberlega.

Þórður Ingason, varamarkvörður Víkings, tók einnig virkan þátt í látunum, fékk rautt spjald og fer líka í þriggja leikja bann en hann var að hita upp þegar lætin sköpuðust.

Þá fær Hajrudin Cardaklija, markvarðaþjálfari Víkings, tveggja leikja bann fyrir munnsöfnuð sinn í látunum.

Kjartan Henry verður ekki með KR gegn Stjörnunni í lokaumferðinni og missir einnig af tveimur fyrstu leikjum næsta tímabils. Finnur Tómas Pálmason og Kennie Chopart verða líka í banni hjá KR gegn Stjörnunni, vegna uppsafnaðra áminninga. KR-ingar vonast til að ná þriðja sætinu sem er mögulegt Evrópusæti.

Þórður Ingason verður ekki með Víkingum gegn Leikni í lokaumferðinni en Víkingar eru í bílstjórasætinu í baráttunni um að taka Íslandsmeistaratitilinn. Kári Árnason verður líka í banni, vegna uppsafnaðra áminninga en hann fékk gult í leiknum gegn KR.
Athugasemdir
banner
banner