lau 21. nóvember 2020 11:11
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
„Jóhannesson gæti ekki beðið um betra félag en Liverpool"
Ísak Bergmann Jóhannesson.
Ísak Bergmann Jóhannesson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mörg stór félög í Evrópu eru á eftir Ísaki Bergmanni Jóhannessyni, leikmanni íslenska landsliðsins og Norrköping í Svíþjóð.

Hann hefur verið orðaður við Manchester United, Liverpool og Juventus. Nú síðast bættist Real Madrid í hóp stórliða sem fylgjast með þessum 17 ára gamla leikmanni.

Juni Calafat, yfirnjósnari Real Madrid, í Evrópu er sagður hafa hrifist mikið af frammistöðu Ísaks.

Calafat átti stóran þátt í því að Real Madrid fékk Martin Ödegaard í sínar raðir á sínum tíma. Spænskir fjölmiðlar segja að Ísak minni á Gareth Bale í byrjun ferilsins þar sem hann sé örvfættur og snöggur.

Read Liverpool, vefsíða sem fjallar eingöngu um Liverpool, fjallar í dag um áhuga Liverpool á íslenska leikmanninum. Í dómi vefsíðunnar er sagt að það væri sniðugt fyrir félagið að fá Ísak, og sömuleiðis sniðugt fyrir leikmanninn að fara til Liverpool.

„Það að Jóhannessyni hafi verið líkt við Gareth Bale er mikið hrós og miðað við það væri sniðugt fyrir Liverpool að ná í hann... Jóhannesson gæti ekki beðið um betra félag en Liverpool, með Klopp við stjórnvölinn og stórkostlegt nýtt æfingasvæði."

„Unglingaliðsleikmenn Liverpool munu núna æfa við hlið stjörnuleikmanna úr aðalliðinu, sem gerir það enn meira spennandi að fara til Liverpool," segir á vefsíðunni.

Ísak spilaði sinn fyrsta A-landsleik síðasta miðvikudagskvöld gegn Englandi.
Athugasemdir
banner
banner
banner