Miðvörðurinn öflugi Konstantinos Mavropanos var á sínum stað í byrjunarliði Grikkja en tókst ekki að koma í veg fyrir tap gegn Skotum.
Grikkland tapaði 0-1 á heimavelli gegn Skotlandi í umspilsleik um sæti í B-deild Þjóðadeildarinnar en liðin mætast aftur á morgun. Skotar eiga þá heimaleikinn en Grikkir munu ekki gefa neitt eftir.
Grikkir áttu slakan fyrri hálfleik á heimavelli en voru talsvert hættulegri í síðari hálfleik, eftir að 17 ára gamall Konstantinos Karetsas kom inn af bekknum.
Karetsas var afar líflegur en tókst hvorki að skora né leggja upp. Hann verður væntanlega í byrjunarliðinu í Skotlandi.
Karetsas er sóknartengiliður að upplagi og hefur verið að fá mikinn spiltíma með Genk í belgísku deildinni þrátt fyrir ungan aldur. Genk trónir á toppi deildarinnar með níu stiga forystu á næsta lið og hefur Karetsas skorað tvö mörk og gefið fjórar stoðsendingar í öllum keppnum það sem af er tímabils.
Karetsas var lykilmaður í yngri landsliðum Belgíu þar sem hann á 20 leiki að baki. Hann lék síðast með U21 landsliði Belgíu í fyrra en eftir mikla baráttu bakvið tjöldin tókst gríska fótboltasambandinu að sannfæra leikmanninn um að spila fyrir A-landslið Grikklands.
„Hjarta mitt slær fyrir Grikkland, ég hef aldrei þráð að spila fyrir neitt annað landslið," sagði Karetsas meðal annars í vetur.
Hann spilaði sinn fyrsta landsleik fyrir Grikkland í tapinu gegn Skotlandi og tóku áhorfendur vel á móti honum. Hann sýndi flotta takta þrátt fyrir að mæta sterkum varnarmönnum Skota en hann var á hægri kanti svo hann var dekkaður af Andy Robertson, bakverði Liverpool.
„Mér líður nú þegar eins og ég eigi heima í þessu landsliði, ég er mjög ánægður með að hafa tekið rétta ákvörðun," sagði Karetsas eftir tapið gegn Skotum.
„Ég mætti Andy Robertson sem er mjög sterkur andstæðingur, en þegar ég er kominn maður á mann þá sé ég ekki hver þetta er á móti mér og mér er alveg sama.
„Við töpuðum leiknum en við áttum góðan seinni hálfleik. Ef við spilum jafn vel í Skotlandi og við gerðum í seinni hálfleiknum þá munum við sigra þetta einvígi."
Athugasemdir