Landsliðsmaður Úsbekistan orðaður við Man City - Liverpool hafnar tilboðum í Doak - Cunha til Arsenal?
   þri 22. maí 2018 13:30
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Kristrún frá Ítalíu í Selfoss (Staðfest)
Kristrún Rut Antonsdóttir.
Kristrún Rut Antonsdóttir.
Mynd: Selfoss
Kristrún Rut Antonsdóttir mun spila með Selfossi í Pepsi-deildinni í sumar. Þetta hefur félagið staðfest.

Kristrún er fædd árið 1994 og átti hún stóran þátt í því að Selfoss vann sér sæti í Pepsi-deildinni í fyrra. Eftir tímabilið yfirgaf hún landið og hélt utan, til Ítalíu.

Hún gekk frá samningum við Chieti sem leikur í B-deildinni ítölsku. Hún spilaði 17 leiki fyrir Chieti og skoraði 5 mörk en tímabilinu á Ítalíu lauk um miðjan maí.

Kristrún hefur því ákveðið að koma heim aftur, en hún lék sína fyrstu meistaraflokksleiki fyrir Selfoss árið 2012. Hún hefur leikið 83 leiki fyrir félagið, þar af 47 í Pepsi-deildinni.

„Við fögnum því mjög mikið að Kristrún hafi ákveðið að spila með okkur í sumar. Hún hefur verið lykilmaður í okkar liði og kemur núna reynslunni ríkari heim frá Ítalíu. Hún er með Selfosshjartað á réttum stað og kemur til með að styrkja okkur mikið í baráttunni í Pepsi-deildinni. Við gleðjumst yfir því að hún sé komin heim," segir Alfreð Elías Jóhannsson, þjálfari Selfoss.

Selfoss hefur tapað fyrstu þremur leikjum sínum í Pepsi-deild kvenna. Næsti leikur liðsins er gegn FH á morgun, miðvikudag.
Athugasemdir
banner
banner