Hinrik Harðarson leikmaður ÍA skoraði eina mark Skagamanna þegar þeir geru 1-1 jafntefli við FH í kvöld. FH jafnaði leikinn á 94. mínútu og Hinrik því skiljanlega svekktur að hafa ekki unnið leikinn.
Lestu um leikinn: FH 1 - 1 ÍA
„Það er náttúrulega gríðarlega svekkjandi að ná ekki að klára þetta úr því sem komið var. Aftur á móti getum við líka tekið með okkur að við erum gríðarlega svekktir að fara með jafntefli af einum sterkasta útivelli landsins. Þannig það er bara áfram gakk í þessu."
ÍA er í 5. sæti deildarinnar, stigi á eftir FH sem er í 4. sæti. Því hefði verið gríðarlega sterkt að vinna í kvöld og fara upp fyrir FH í töflunni.
„Það er svo rosalega mikið eftir að þessu, þannig það er bara næsti leikur. Þetta skiptir þannig séð engu máli. Auðvitað hefði verið rosalega sterkt að sækja 3 stig hér, en það er bara að fara í næsta leik og vinna."
Hinrik er sonur Harðar Magnússonar sem er algjör goðsögn hjá FH. Það hefur því verið aðeins extra krydd í því að skora á móti FH.
„Það var bara alveg yndislegt (að skora), maður ólst nánast bara upp hérna við að sjá Steven Lennon skora mörk í hverri umferð. En þetta er bara geggjað fyrir mig, ég er náttúrulega bara Skagamaður og ég held að pabbi hafi verið Skagamaður í þessum leik líka. Ég ætla rétt að vona að hann hafi fagnað, ég ætla að fara ræða við hann núna."
Viðtalið má sjá í heild sinni í spilaranum hér fyrir ofan.