Fótbolti.net ræddi við framleiðandann Ben Turner og stuðningsmanninn Andrew Cammiss
Stewart Donald, stjórnarformaður Sunderland. Hann og stjórnarmaðurinn Charlie Methven koma mikið við sögu í seríu tvö. 'Í þáttaröð tvö voru nýju eigendur mjög opnir við ykkur og það skipti miklu máli fyrir þáttinn'
Höskuldaviðvörun! Mælt er með því að horfa á þættina áður en þessi grein er lesin.
Þann 1. apríl síðastliðinn kom út önnur þáttaröðin af hinum vinsælu þáttum Sunderland 'Til I Die inn á streymisveituna Netflix. Í þáttunum er skyggnst á bak við tjöldin hjá enska knattspyrnufélaginu Sunderland AFC og sýnt er frá hæðum og lægðum félagsins - þó mikið meira sé um lægðir.
Fyrsta þáttaröðin sló í gegn á Íslandi og víðar en hún fjallaði um um baráttu Sunderland í Championship-deildinni. Eftir að hafa fallið úr ensku úrvalsdeildinni þá féll Sunderland beinustu leið úr Championship-deildinni í C-deildina. Í nýju þáttaröðinni er fjallað um síðasta tímabil hjá Sunderland í ensku C-deildinni og óhætt er að segja að þar hafi verið mikil dramatík eins og fyrri daginn.
Þótt að um raunveruleikasjónvarp sé að ræða þá virðist handritið oft á tíðum vera bilaðara en skáldskapur. Ben Turner, sem er aðalframleiðandi þáttanna ásamt Leo Pearlman, segir að um draumaverkefni hafi verið að ræða.
„Við sem stöndum að baki þáttanna erum stuðningsmenn Sunderland og þetta er því algjört draumaverkefni fyrir okkur," sagði Turner í samtali við fréttaritara Fótbolta.net. „Við höfum verið að kynna þessa hugmynd frá því við byrjuðum með fyrirtækið okkar, en það tók tíma fyrir langar heimildarmyndir að festa sig í sessi á veitum eins og Netflix."
„Þegar við byrjuðum að ræða við félagið þá hjálpaði það mikið til að nafnið á fyrirtækinu er Fulwell 73. Fulwell stúkan var þar sem stuðningsmenn Sunderland voru á Roker Park (fyrrum heimavelli Sunderland) og árið 1973 vannst síðasti stóri titill Sunderland."
Hvað varðar aðgengi að félaginu segir Turner: „Það var munur á milli þátarraða. Við fengum aldrei aðgang að búningsklefanum þótt við höfum reynt það stöðugt. Í þáttaröð tvö voru nýju eigendur mjög opnir við ykkur og það skipti miklu máli fyrir þáttinn."
Fullkomið efni á þessum tímum
Nú þegar kórónuveirufaraldurinn er í gangi þá er enginn fótbolti eða aðrar íþróttir í gangi í stærstu deildum Evrópu eða á Íslandi. Því leitar margt fólk inn á Netflix eða aðrar streymisveitur til að verja tíma sínum og dreifa huganum.
Sunderland Til' I Die er tilvalið efni fyrir alla, og þá sérstaklega fótboltáhugafólk, þegar enginn fótbolti er í gangi. Turner segir að móttökurnar hafi verið skemmtilegar. „Velgengnin virðist hafa vaxið enn frekar með þátarröð tvö. Það skemmir ekki fyrir okkur að það þurfi allir að vera heima hjá sér og engar íþróttir séu í gangi sem stendur."
„Það er mjög ánægjulegt að sjá að fólk elski þáttinn, bæði vegna þess að það er alltaf gaman þegar fólk elskar það sem þú ert að gera og líka vegna þess að ég elska Sunderland og þessi þáttur varð til þess að fleira fólki þykir nú vænt um félagið."
Verða gleðitár í næstu þáttaröð?
Það var nú ekki mikið um gleði og ánægju í fyrstu seríunni, en í annarri þátarröðinni er aðeins minni depurð yfir. Nýir eigendur koma inn og fríska upp á hlutina. Sunderland fer tvisvar til London og spilar úrslitaleiki á Wembley. Báðir þessir úrslitaleikir enda þó í tárum.
Þættirnir snúast mikið um stuðningsmennina sem eru gríðarlega ástríðufullir fyrir félaginu.
Andrew Cammiss er stuðningsmaður Sunderland sem kemur mikið fyrir í þáttunum. Hann fer á alla þá leiki sem hann getur farið á, en ef hann kemst ekki á völlinn þá hlustar hann á útvarpslýsingu og fylgist þannig með gangi mála.
It’s back #sunderlandtillidie https://t.co/6nv416Af4t
— Andrew Cammiss (@BIGANDYSAFC) March 18, 2020
Andrew segir í samtali við Fótbolta.net að þó síðasta tímabil hafi endað í tárum þá hafi ekki verið erfitt að horfa á þættina. „Það var ekki erfitt, nei. Það vita náttúrulega allir hvernig þættirnir enda, en þegar ég lít yfir tímabil þá á ég svo margar góðar minningar af ferðalögum á leiki með góðum vinum. Ég reyni að láta 90 mínútur af fótbolta ekki eyðileggja þessar minningar."
Sunderland var í sjöunda sæti C-deildarinnar á Englandi, einu stigi frá umspilssæti þegar hlé var gert á deildinni vegna kórónuveirufaraldursins.
„Ég er bjartsýnn á það að við munum komast aftur í Championship, en þegar við komumst þangað þá mun nýtt verkefni hefjast að reyna að komast upp í ensku úrvalsdeildina. Ég sé það ekki fyrir mér að við munum komast beint úr Championship upp í ensku úrvalsdeildina," segir Andrew.
Ekki er búið að taka þriðju þáttaröðina upp á þessu tímabili, en það má aldrei segja aldrei um að sú þáttaröð muni koma út.
„Við munum sjá hvernig Sunderland gengur næstu árin," segir Turner. „Við þurfum að færa söguna aðeins frá því sem við höfum sagt frá hingað til. Ég myndi elska það að sýna frá félaginu og stuðningsmönnum upplifa gleði loksins."
Vonandi mun þriðja þáttaröðin líta dagsins ljós einn daginn þar sem gleðin verður í fyrirrúmi hjá knattspyrnufélaginu Sunderland; félagi sem hefur upplifað of mikla sorg síðastliðin ár.
Athugasemdir