Ægir Jarl Jónasson gekk nýlega í raðir danska C-deildarfélagsins AB frá KR. Þessi 26 ára miðjumaður gerði tveggja ára samning við félagið en það er staðsett rétt fyrir utan Kaupmannahöfn.
Ægir mætti sem áhorfandi á leik Lyngby og FCK í dönsku úrvalsdeildinni í gær og sýndi á samfélagsmiðlum þar sem hann studdi félaga sína hjá Íslendingaliðinu Lyngby.
Ægir mætti sem áhorfandi á leik Lyngby og FCK í dönsku úrvalsdeildinni í gær og sýndi á samfélagsmiðlum þar sem hann studdi félaga sína hjá Íslendingaliðinu Lyngby.
Ægir var hinsvegar grunlaus um að Lyngby og hans nýja félag, AB, eru erkifjendur. Það féll í ansi grýttan jarðveg hjá stuðningsmönnum AB að sjá Ægi styðja Lyngby í leiknum í gær.
Ægir Jarl sá sig tilneyddan til að skrifa afsökunarbeiðni og útskýra málið fyrir stuðningsmenn síns nýja liðs.
„Varðandi innlegg mitt. Þetta er til allra stuðningsmanna AB: Ég biðst afsökunar, ég biðst afsökunar! Ég þekkti ekki þennan sögulega ríg sem er milli AB og Lyngby," skrifaði Ægir á Instagram.
„Ég er ekki fullkominn og mætti á leikinn til þess að styðja við íslenska leikmenn sem buðu mér á leikinn. Ég lofa af fullu hjarta að ég mun leggja líf og sál í verkefnið hjá AB svo við getum náð sameiginlegum markmiðum okkar. Svona mistök munu ekki endurtaka sig."
Sævar Atli Magnússon og Kolbeinn Birgir Finnsson spila fyrir Lyngby sem tapaði 0-2 fyrir FC Kaupmannahöfn í gær. Orri Steinn Óskarsson skoraði fyrra mark leiksins.
Athugasemdir