Liverpool í lykilstöðu til að fá Rodrygo frá Real Madrid - Brentford hafnaði fyrsta tilboði Newcastle í Wissa
   mið 23. júlí 2025 16:50
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Viðtal
Túfa: Ekkert lið í Evrópu hefur spilað jafnmarga leiki og við
'Það sýnir að þú ert að gera góða hluti'
'Það sýnir að þú ert að gera góða hluti'
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
'Hópurinn okkar, klúbburinn og allir sem koma að félaginu vilja vera í þessari stöðu sem við erum í núna'
'Hópurinn okkar, klúbburinn og allir sem koma að félaginu vilja vera í þessari stöðu sem við erum í núna'
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
'Við verðum að eiga tvo mjög góða leiki til að eiga möguleika á því að fara áfram'
'Við verðum að eiga tvo mjög góða leiki til að eiga möguleika á því að fara áfram'
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Stemning í kringum körfuboltaliðið.
Stemning í kringum körfuboltaliðið.
Mynd: EPA
'Vonandi verður þetta svona allan júlí og svo ágúst líka, þá verðum við mjög ánægðir'
'Vonandi verður þetta svona allan júlí og svo ágúst líka, þá verðum við mjög ánægðir'
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
„Við ferðuðumst út á mánudag, náðum degi í endurheimt í gær og í dag eru fundir og æfing í kvöld," segir Srdjan Tufegdzic, þjálfari Vals, við Fótbolta.net í dag. Framundan er fyrri leikur Vals og Kauno Zalgiris í 2. umferð forkeppninnar í Sambandsdeildinni. Fyrri leikurinn fer fram í Kaunas á morgun.

Valsmenn flugu út eldsnemma á mánudagsmorgni, fóru þrjár mismunandi leiðir og voru komnir til Kaunas, næststærstu borgar Litháens, um kvöldið. Millilent var í Amsterdam, Helsinki og Frankfurt. „Allir hóparnir fóru af stað á mjög svipuðum tíma og lentu á mjög svipuðum tíma."

Valur vann Flora Tallinn 5-1 í fyrstu umferðinni. Leikurinn á morgun hefst klukkan 16:00 á morgun og fer fram á Darius & Girenas leikvanginum í Kaunas.

Frægt körfuboltalið og núna á fótboltaliðið að vinna titilinn
„Þetta er betra lið en við Flora Tallinn sem við mættum í síðustu umferð, enda erum við komnir umferð lengra. Körfuboltaliðið hérna er eitt það frægasta í Evrópu, íþróttasagan hér er aðallega tengd körfuboltanum."

„Það er búið að setja mikið fjármagn í fótboltaliðið og stefnan er að reyna vinna titilinn í heimalandinu. Liðið er með gott forskot á toppnum í deildinni og búið að vinna flesta leiki. Það eru rúmlega tíu erlendir leikmenn í hópnum, leikmenn sem hafa verið á mjög háu getustigi. Þetta verður hörkuverkefni."

„Þeir eru með sérstakan leikstíl, spila 4-2-3-1 í grunninn en eru að ýta bakvörðunum rosalega hátt upp og reyna yfirmanna miðsvæðið með 5-6 mönnum, allir koma mjög innarlega á völlinn. Það er ekki beint neitt íslenskt lið til að bera saman við. Þeir skora fullt af mörkum í sínum leikjum."

„Þeir eru miklu betri í ár heldur en öll árin á undan. Maður finnur alltaf einhverjar leiðir til að afla upplýsinga, það eru alltaf einhverjir Serbar, þjálfarar eða leikmenn, sem hafa verið í landinu. Ég hef talað við serbneskan þjálfara, fengum líka upplýsingar frá velska liðinu sem þeir mættu síðast, og við höfum horft á fullt af leikjum. Þeir hafa til þessa aldrei sett eins mikið fjármagn í liðið, sjá tækifæri í því að vinna loksins titilinn. Liðið sem vann í fyrra, Zalgiris í Vilnius, er núna 18 stigum á eftir, það segir kannski sitt."

„Þeir spiluðu á mánudagskvöld og ég fór og horfði á þá. Þeir mættu botnliðinu og þjálfarinn hvíldi stóran hluta byrjunarliðsins í þeim leik. Ég sá því ekki nákvæmlega hvernig liðið spilar, en sá umhverfið, völlinn og allt þetta, sem er líka gott. Við verðum að eiga tvo mjög góða leiki til að eiga möguleika á því að fara áfram."

„Þetta er geggjaður völlur, grasvöllur, 15 þúsund manna leikvangur. Hann er frekar nýr og minnir á skemmtilega velli úti í Evrópu. Það er mikil spenningur held ég fyrir strákana að fara á æfingu og sjá völlinn og umhverfið fyrir morgundaginn."


Margir leikir á stuttum tíma
Valur hefur unnið átta leiki í röð í öllum keppnum, hvernig metur Túfa stöðuna á sínu liði eftir Víkingsleikinn?

„Svipað eins og eftir alla hina leikina. Við vildum fara út snemma á mánudeginum til að nota þann dag til að ferðast og þriðjudaginn í endurheimt. Það er búið að vera mikið leikjaálag, held það sé ekkert lið í Evrópu sem hefur spilað jafnmarga leiki og við eftir síðasta landsleikjahlé. Við höfum allt til alls hérna, öflugt sjúkrateymi og eigum að geta undirbúið okkur vel fyrir morgundaginn."

Væru ekki til í að breyta þessu
Valur spilar á morgun sinn tíunda leik á 40 dögum. Leikjatörnin hófst 14. júní og hafa mest liðið fimm dagar á milli leikja. Það að spila svona marga leiki á stuttum tíma, er þetta bæði skemmtilegt og erfitt?

„Þetta tekur á, það tekur á leikmenn að ná eins góðri endurheimt, gera allt sem þeir geta til að vera klárir í að spila á þriggja daga fresti, leik eftir leik. Þetta reynir líka á þjálfarateymið, þetta er mjög stuttur tími í undirbúning fyrir hvern leik, stuttur tími til að horfa á, klippa og hitt og þetta. Það er ekki búinn að vera mikill svefn síðasta mánuðinn. Sama með sjúkrateymið, þetta reynir á okkur alla."

„Hópurinn okkar, klúbburinn og allir sem koma að félaginu vilja vera í þessari stöðu sem við erum í núna. Það að vera kominn á þennan stað, á toppinn í deildinni, í bikarúrslit og vonandi svo enn lengra í Evrópu, það sýnir að þú ert að gera góða hluti. Menn eru í fótbolta til að ná árangri. Við værum ekki til í að breyta þessu. Vonandi verður þetta svona allan júlí og svo ágúst líka, þá verðum við mjög ánægðir,"
segir Túfa.
Athugasemdir
banner
banner