Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar:
Það hefur verið mikið rætt um Joe Hart eftir að Pep Guardiola, nýr þjálfari Manchester City, ákvað að velja Willy Caballero til að standa í rammanum í fyrstu tveimur leikjum tímabilsins.
Mér persónulega hefur fundist að Hart verði aðeins þyngri, hægari og stirðari með hverju tímabilinu sem líður. Hann hefur í raun ekki fylgt eftir mjög góðu tímabili þegar City vann deildina fyrst. Þegar ég segi þyngri þá ég ekki endilega við feitari en hann virðist alltaf vera bæta á sig aðeins meiri vöðvamassa. Ofan á þetta hefur Joe Hart aldrei verið neitt rosalega góður í fótunum og í raun frekar slakur í því sem er kallað „sweeper keeper“ en í myndbandi hér neðst í greininni má sjá þó nokkur úthlaup hjá Hart sem enda vægast sagt illa.
Áður en fólk fer að segja að úthlaup Manuel Neuer séu ekki eðlileg og það sé ekki hægt að miða við hann þá bendi ég á að Kristján Finnbogason var að stunda þetta á síðustu öld, og reyndi undirritaður að herma eftir því í yngri flokkum (með misjöfnum árangri) áður en nokkur utan Þýskalands hafði hugmynd um hver Manuel Neuer var.
Ég held þó að það sé ekki endilega við Hart sjálfan að sakast, mig grunar að þetta eigi sér í raun dýpri rætur innan enskrar knattspyrnu og skorðist þar af leiðandi ekki aðeins við Hart. Ég hef ekki nægilega þekkingu til að fara þylja upp landsliðsmarkverði síðustu 20-30 ára en síðan David Seaman hætti þá hafa hinir ýmsu jólasveinar staðið í markinu hjá Englandi. Oftar en ekki með skrautlegum árangri, má þar nefna Scott Carson, Robert Green og David James sem dæmi. Ef við skoðum svo markmennina sem standa enska landsliðinu til boða í dag þá eru þeir í raun allir mjög svipaðir markmenn. Eru flestir góðir í nokkrum hlutum og að sama skapi slakir í öðrum.
Uppbygging þeirra er mjög svipuð, eru þær týpur sem gætu verið yfirgangsseggurinn á leikvellinum, stórir og sterkir strákar. Hvað varðar gáfnafar ætla ég ekki að fara vera með neina sleggjudóma en einbeitingarskortur virðist þó oftar en ekki einkenna enska markverði. Sem dæmi um enska markmenn má nefna Joe Hart (196 cm), Frasier Forster (201 cm), Ben Foster (193 cm), Jack Butland (196 cm), John Ruddy (193 cm) og svo einn sem sker sig úr en það er Tom Heaton (185 cm). Vissulega eru flestir markmenn hávaxnir en samt sem áður eru menn eins og Keylor Navas, Claudio Bravo, Jan Oblak, Marc-André ter Stegen og fleiri sem eru taldir með þeim bestu í Evrópu allir undir 190 cm á hæð.
Ensku markmennirnir eins og áður sagði eru flestir góðir í sömu sviðum markvörslu, til að mynda eru þeir oftast góðir „shot stoppers“ ásamt því að geta lúðrað tuðrunni þvert yfir endilangan völlinn. Að sama skapi eru þeir oftar en ekki ágætir í 1á1 aðstæðum hreinlega vegna þess hve fjandi stórir þeir eru. Þegar kemur að því að lesa leikinn, fara út í fyrirgjafir og skerast inn í sóknarleik andstæðinga þá eru þeir komnir út fyrir þægindarammann. Þetta ásamt því hversu stirðbusalegir þeir eru oft á tíðum er ekki góð blanda. Það virðist einnig sem massífur einbetingarskortur og hvernig þeir eiga að líkamsstaðan ætti að vera til að bregðast rétt við skotum sé hreinlega röng. Það leiðir af sér að boltinn skoppar oftar en ekki hreinlega af þeim og aftur út í teiginn þegar aðrir markmenn næðu að halda boltanum.
Ástæðuna fyrir þessu er eflaust að finna í grunn æfingunum sem þeir eru látnir gera á yngri árum en þar byggist allt á krafti og hraða. Gary Neville ræddi þetta aðeins í síðasta þætti af Monday Night Football sem má finna hér. Þar sagði hann að á sínum stutta tíma hjá Valencia á Spáni hefði hann tekið eftir því að markmennirnir þar voru alltaf með í reit og öllum halda bolta æfingum sem voru gerðar. Oftar en ekki voru þeir á sitthvorum enda vallarins með afmarkað svæði þegar liðinu var skipt upp til að halda bolta, stundum mátti pressa þá og stundum ekki. Að sama skapi ef það voru kannski 4á4 að halda bolta þá var oft einn eða jafnvel tveir markmenn með í þeirri æfingu sem jókerar (einstaklingur sem er með liðinu sem er með boltann, þurfa ekki að vinna hann). Svo þegar æfingin var búin hjá útileikmönnum liðsins eða þeir farnir að sinna einstaklingsæfingum þá fóru markmennirnir með markmannsþjálfara liðsins og gerðu hinar ýmsu markmannsæfingar. Á Englandi fara markmennirnir hins vegar á undan restinni af hópnum út, fara í gegnum gífurlegar hraða og krafts æfingar þar sem allt kapp er lagt á að keyra markmanninn út og svo komu þeir kannski aðeins inn í spilið með liðinu í lok æfingar.
Þetta minnti mig á viðtal sem Guðmundur Hreiðarsson, markmannsþjálfari A landsliðs karla, var í þegar hann rætti um komu Hannesar Þórs Halldórssonar til KR. Þar fór Guðmundur með Hannes í gegnum hinar ýmsu æfingar, oftar en ekki tæknilegar og alltaf rólegar. Planið var aldrei um að keyra Hannes út. En samt sem áður spurði Hannes oftar en ekki hvenær þeir færu í svokallaðar keyrslu æfingar, því það var jú þannig sem hann var vanur að gera hlutina hjá Fram.
Í öðru viðtali við Guðmund, nú á X-inu árið 2014 (má finna hér) ræðir hann um þjálfun markvarða og hvernig hún er að breytast svo mikið að þetta sé í raun að verða önnur íþrótt; „Það má segja að þetta stefni í að verða önnur íþrótt. Þegar ég var og hét sem leikmaður var þetta nánast ekki neitt. Markmannsþjálfun fólst fyrst og fremst í magni. Ef maður var örmagna eftir æfinguna þá var þetta frábær æfing. Nú er tíðarandinn annar og mikil fagmennska í gangi og hún hefur rutt sig inn á nánast alla klúbba,"
Síðan tekur Guðmundur dæmi um landsliðsmarkverðina Hannes Þór og Ögmund Kristinsson og hvernig þeir hafa bæðir bætt sig gífurlega frá því að þeir fóru frá Fram. Guðmundur tók auðvitað Hannes í gegn hjá KR en hann nefnir svo dæmi um það hvernig Ögmundur hefur breyst eftir að hafa farið í atvinnumennsku; Fituprósentan er lægri, hann er í betri þjálfun, betra jafnvægi, hann er orðinn sterkari og er hættur að æfa rangt. Þá er ég að meina að hann var mikið að lyfta en nú gerir hann allt undir handleiðslu sérfræðinga. Þegar landsliðið kom saman í haust sá ég annan pól á honum.“ Þó svo að Ögmundur hafi aðeins farið frá Íslandi til Danmerkur þá var samt sem áður sjáanlegur munur á honum á aðeins nokkrum mánuðum.
Til að færa enn frekar rök fyrir þessari kenningu sem ég er með um enska markmenn þá er vert að benda á að flestir þeirra fara á einhverjum tímapunkti á lán í neðri deildirnar á Englandi. Í viðtali við vefsíðuna 433.is á síðasta ári sagði landsliðsmaðurinn Kári Árnason að neðrideilda bolti á Englandi væri í raun bara keppni hvort liðið væri betra að vinna hálofta boltana, það væri lítið sem ekkert um taktík og enn minna um að spila boltanum með jörðinni. Að spila stutt út frá markmanni þekkist því varla. Það er því eðlilegt að þegar ungir markmenn mæta í þannig deild þá er allt kapp lagt á að bæta þá í þeim þáttum sem sá bolti byggist á. Sem eru í raun eingöngu skot, fyrirgjafir og sparka hátt og langt. Að sama skapi blása markmennirnir út til þess að vera hreinlega ekki jarðaðir í hvert skipti sem þeir fara út í fyrirgjöf.
Kenningin er því í stuttu máli er sú að vandræði enskra markmanna byggjast í raun á þeim skilgreiningum sem Englendingar setja knattspyrnumönnum og öðrum íþróttamönnum. Þessi eilífa „he needs to bulk up“ kenning þeirra um unga leikmenn virðist vera ein helsta hindrun enskra leikmanna í dag. Sama hvort þeir séu markmenn eða ekki.
Að öllu þessu sögðu þá er spurningin hvort Joe Hart sé hreinlega nægilega góður fyrir Manchester City, sem vill vera besta lið á Englandi og allavega hluti af bestu fjórum liðum Evrópu? Svarið er einfaldlega Nei að mínu mati.
Til þess að vera viss um að ég væri ekki einn um þessa skoðun þá spurði ég meðal annars markmannsþjálfara í Pepsi-deild karla, markvörð sem á vel yfir 150 leiki með liði í efstu deild hér á landi sem og markmann í Pepsi-deild kvenna og komst að því að við vorum öllu á þeirri skoðun að Joe Hart væri alls ekki hluti af Topp 5 markvörðum í Evrópu og varla í Topp 4 á Englandi. Hann væri í raun ekki í sama flokki og aðrir elítu markmenn í Evrópu en væri samt sem áður ekki það langt á eftir þeim, það virðist hreinlega eins og honum hafi farið aftur á undanförnum árum. Að sama skapi getur form skipt sköpum en Gianluigi Buffon var í raun orðinn of gamall að mati flestra fyrir ekki svo löngu en hann hefur átt frábær síðustu tvö ár í stórbrotnu Juventus liði. Joe Hart þarf því að finna sitt besta form sem fyrst ef hann vill halda í sæti sitt hjá enska landsliðinu.
Eftir að hafa nefnt Buffon þá er eiginlega ómögulegt að sleppa viðtali sem hann var í um daginn en hann er ósammála okkur amatörunum á Íslandi virðist vera. Hann telur að Hart hafi hæfileikana og skapgerðina til að halda áfram að vera einn af bestu markvörðum heims. Buffon bendir á að Hart hafi komið til baka áður en það var þegar Manuel Pellegrini reyndi að skipta honum út fyrir Costel Pantilimon á sínum tíma. Hart kom til baka og átti eflaust eitt af sínum bestu tímabilum í kjölfarið.
Persónulega finnst mér frekar undarlegt ef Hart þarf ítrekað að fá spark í rassinn til að halda því getustigi sem hann æfir og spilar á. Að öllu þessu sögðu þá hef ég mínar efasemdir um Claudio Bravo. Hann er orðinn 33 ára gamall og hefur aðeins spilað í Chile og á Spáni, miðað við hvað Victor Valdes virtist eiga erfitt með að höndla hina ýmsu þætti enskrar knattspyrnu þá grunar mig að Bravo gæti verið í sömu vandræðum. Hugmyndin hvort Pep vilji fá Bravo í eitt til tvö tímabil meðan hann fínpússar Hart (sem væri óeðlilegt þar sem hann er orðinn 29 ára gamall) virðist vera úr sögunni eftir að Pep sagði að Hart mætti fara ef hann vildi ekki vera áfram í City. Sama hvað gerist þá verður áhugavert að fylgjast með þeim markvarðakapal sem verður í gangi næstu tvær vikur.
Hér að ofan nefndi ég myndband sem sýndu nokkur af mistökum Joe Hart með Manchester City og Englandi. Þó myndbandið sé tveggja ára gamalt þá má vel sjá af hverju Pep hefur litla trú á því að Hart geti verið þessi „sweeper keeper“ sem hann vill spila með. Að sama skapi gleymist það að Joe Hart er gífurlega mistækur og má benda á markið gegn Íslandi á EM í sumar sem dæmi um það en mörg svipuð dæmi er að sjá í myndbandinu hér að neðan.
Athugasemdir