Jón Dagur Þorsteinsson var allt í öllu er Leuven vann 2-1 sigur á Mechelen í belgísku úrvalsdeildinni í kvöld, en hann skoraði, klúðraði víti og var síðan rændur laglegu marki í lokin.
Íslenski landsliðsmaðurinn var á bekknum í síðustu tveimur leikjum Leuven, en mætti aftur í byrjunarliðið í dag.
Hann var ekki lengi að þakka traustið og skoraði á 2. mínútu leiksins, en gat tvöfaldað forystuna á 15. mínútu er hann fiskaði vítaspyrnu fyrir gestina. Gaetan Coucke, markvörður Mechelen, sá við vítinu og áfram hélt leikurinn.
Þegar lítið var eftir skoraði Jón Dagur laglegt mark, en það fékk ekki að standa þar sem liðsfélagi Jóns var rangstæður í aðdragandanum og lokatölur því 2-1 Leuven í vil. Leuven er í 12. sæti með 9 stig.
Ísak Andri Sigurgeirsson skoraði sitt fyrsta deildarmark fyrir Norrköping sem gerði 2-2 jafntefli við Brommapojkarna í sænsku úrvalsdeildinni.
Stjörnumaðurinn skoraði á 19. mínútu leiksins. Hann og Arnór Ingvi Traustason spiluðu báðir allan leikinn, en Ari Freyr Skúlason kom inn af bekknum þegar þrettán mínútur voru eftir. Norrköping er í 5. sæti með 35 stig.
Samúel Kári Friðjónsson var í byrjunarliði Atromitos sem gerði 1-1 jafntefli við OFI Crete í grísku úrvalsdeildinni. Samúel fór af velli í hálfleik, en Guðmundur Þórarinsson kom inn hjá Crete þegar tíu mínútur voru eftir. Crete er í 3. sæti með 8 stig, en Atromitos í næst neðsta sæti með 2 stig.
Jón Daði Böðvarsson kom inn af bekknum á 73. mínútu í 1-1 jafntefli Bolton gegn Peterborough og þá stóð Jökull Andrésson í marki Carlisle sem tapaði fyrir Derby, 2-0, í ensku C-deildinni. Bolton er í 7. sæti deildarinnar með 14 stig, en Carlisle í 19. sæti með 7 stig.
Jafn í Íslendingaslag á Ítalíu
Birkir Bjarnason var í byrjunarliði Brescia sem gerði markalaust jafntefli við Venezia. Mikael Egill Ellertsson byrjaði í liði Venezia, en fór af velli á sömu mínútu og Bjarki Steinn BJarkason kom inn á.
Birkir fór af velli á 85. mínútu. Hjörtur Hermannsson sat allan tímann á bekknum hjá Pisa sem vann 1-0 sigur á FeralpiSalo í B-deildinni. Venezia er í 2. sæti með 12 stig, Brescia í 9. sæti með 7 stig og Pisa í 12. sæti, einnig með 7 stig.
Júlíus Magnússon lék allan leikinn í 2-1 sigri Fredrikstad á Ranheim. Fredrikstad er á toppnum í norsku B-deildinni með 51 stig og getur bráðlega farið að fagna úrvalsdeildarsætinu.
Jónatan Ingi Jónsson lagði upp eina mark Sogndal í 1-1 jafnteflinu gegn Asane. Jónatan og Valdimar Þór Ingimundarson léku allan leikinn, en Óskar Borgþórsson fór af velli á 76. mínútu. Sogndal er í 5. sæti með 35 stig.
Rúnar Már Sigurjónsson var í byrjunarliði Voluntari sem tapaði fyrir Poli Iasi, 2-1, í rúmensku úrvalsdeildinni. Rúnar fór af velli á 72. mínútu, en Voluntari er með aðeins 10 stig eftir tíu leiki.
Þorri Mar Þórisson kom inn af bekknum á 70. mínútu í 2-2 jafntefli Öster gegn Landskrona í sænsku B-deildinni. Alex Þór Hauksson var ekki með Öster í dag. Liðið er í 4. sæti með 41 stig og í harðri baráttu um að komast upp.
Þórir Jóhann Helgason byrjaði á bekknum hjá Braunschweig sem gerði 2-2 jafntefli við Nürnberg, en hann kom við sögu þegar stundarfjórðungur var eftir af leiknum. Braunschweig er í næst neðsta sæti með 5 stig.
Aron Sigurðarson lék þá allan leikinn er Horsens vann 3-1 sigur á Vendsyssel í dönsku B-deildinni. Horsens er í 6. sæti með 16 stig.
Athugasemdir