Rashford yfirgefur Man Utd - Tottenham á eftir Alberti
   mið 24. febrúar 2021 23:50
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Steini um ferilinn: Tók tvær sekúndur að segja já við Blika
Þorsteinn Halldórsson.
Þorsteinn Halldórsson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Hann var á dögunum ráðinn landsliðsþjálfari kvenna.
Hann var á dögunum ráðinn landsliðsþjálfari kvenna.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Steini þjálfaði fyrst í kvennaboltanum 1993 en svo ekkert í rúm 20 ár áður en hann tók við Breiðabliki. Hann gerði magnaða hluti með Blika.
Steini þjálfaði fyrst í kvennaboltanum 1993 en svo ekkert í rúm 20 ár áður en hann tók við Breiðabliki. Hann gerði magnaða hluti með Blika.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Þorsteinn Halldórsson, nýr landsliðsþjálfari kvenna, var gestur í nýjasta þætti af Heimavellinum.

Hann fór þar yfir feril sinn í þjálfun en hann þjálfaði kvennalið Breiðabliks með virkilega góðum árangri frá árinu 2014. Hann gerði Breiðablik að Íslandsmeistara 2015, 2018 og 2020 og vann bikarmeistaratitilinn með liðið 2016 og 2018. Þá kom hann liðinu í 16-liða úrslit Meistaradeildarinnar 2019.

Þorsteinn, sem er fæddur 1968, hefur komið víða við sem leikmaður og þjálfari.

„Ég byrjaði að spila barnungur austur á Neskaupsstað. Ég er fæddur og uppalinn þar. Ég var þar til 18 ára aldurs. Ég fór svo í Vesturbæinn og spilaði með KR í sjö ár. Ég fór þaðan í FH og var þar í nokkur ár. Fór þaðan í Þrótt og síðan hætti ég 1999. Meðfram spilamennsku var ég að þjálfa," sagði Þorsteinn.

„Ég byrjaði 1993 að þjálfa kvennalið Fram og þjálfaði þar í eitt tímabil í 2. deildinni. Síðan var ég alltaf að þjálfa 7. flokk hjá Þrótti á meðan ég var að spila þar. Eftir að ég hætti byrjaði ég að þjálfa 2. flokk karla hjá Val. Ég fór þaðan til Stjörnunnar og var aðstoðarþjálfari í meistaraflokki, og þjálfaði 2. flokk líka. Síðan fór ég til Hauka og þjálfaði meistaraflokk karla þar. Ég þjálfaði þar í tvö og hálft ár, og var rekinn."

Hann notaði það sem jákvæða reynslu að vera rekinn frá Haukum. „Maður lærir helling af því. Ég held ég hafi lært mest á því að vera trúr því sem ég vil gera, að vera ekki að hlusta á eitthvað bull í kringum mig. Maður þarf að trúa á sjálfan sig."

„Ég fór svo til Þróttar og þjálfaði þar 2. flokk og var aðstoðarþjálfari meistaraflokks. Ég var hjá Þrótti í fimm ár og var aðstoðarþjálfari í meistaraflokki í þrjú eða fjögur ár. Ég tók við Þrótti í lok tímabils 2009 þegar Þróttur fann engan þjálfara til að taka við liðinu. Þá komu þeir til mín og spurðu: 'Vilt þú ekki bara taka þetta?' Þeir létu Gunnar Oddsson fara og ég átti að vera áfram aðstoðarþjálfari en ég þeir voru í nokkra daga að leita að þjálfara og það sögðu allir nei. Þannig að þeir báðu mig um að taka þetta og ég kláraði tímabilið. Liðið féll."

„Síðan ákvað ég að hvíla mig frá meistaraflokki. Ég fór í KR og þjálfaði 3. og 4. flokk. Ég var í KR í fimm ár, þjálfaði 3. og 4. flokk í þrjú ár og tók svo við 2. flokk á fjórða ári. Ég var í KR í fimm ár í heildina en svo vildi KR ekki hafa mig áfram. Ég veit ekki af hverju."

„Breiðablik kom þá mjög óvænt upp. Eysteinn, framkvæmdastjóri, ég þekki hann vel. Hann var aðstoðarmaður minn þegar ég tók við Þrótti. Við áttum spjall saman og hann sagði: 'Ég er með tvö dæmi fyrir þig.' Hann lagði spilin á borðið og spurði hvort ég vildi þjálfa þennan flokk eða meistaraflokk kvenna. Ég sagði bara strax: 'Meistaraflokk kvenna'. Ég ákvað að stökkva á það."

Fyrsta þjálfarastarf hans var meistaraflokkur Fram 1993. Hann þjálfaði svo ekki stelpur neitt þangað til hann tók við Breiðabliki.

„Mér langaði bara að prófa eitthvað nýtt og þegar þetta kom til tals þá sagði ég bara já. Það tók mig tvær sekúndur. Ég fylgdist alltaf með landsleikjum og alltaf eitthvað með deildinni."

„Þegar ég kem inn í Breiðabliki þá treysti ég rosalega mikið á fólk í kringum mig, sérstaklega í leikmannamálum. Með tíð og tíma hefur maður lært inn á þetta."

Hver er munurinn á að þjálfa stelpur og stráka?
Þorsteinn hefur komið víða við og núna þjálfað bæði stelpur og stráka mikið. Hann var spurður að því hver munurinn væri á að þjálfa stelpur og stráka.

„Sko, ég hef ekki breytt mér sem þjálfara. Ég hef kannski aðeins róast með árunum. Ég held ég komi fram við þær eins og ég kem fram við strákana. Þetta eru bara manneskjur, það er ekkert flóknara en það. Ég segi alltaf að eini munurinn á að þjálfa stelpur og stráka sé að þú ert ekki inn í klefa, þú finnur ekki klefastemninguna. Það er stærsti munurinn. Þú heldur ræðu fyrir leik og svo fer maður að bíða þangað til leikurinn byrjar. Það er stærsti munurinn."

Hlusta má á þáttinn í heild sinni hér að neðan.

Sjá einnig:
Steini Halldórs ætlar í svipaðar pælingar og hjá Breiðabliki
Heimavöllurinn: Þorsteinn Halldórsson landsliðsþjálfari er mættur á Heimavöllinn
Athugasemdir
banner
banner
banner