Van Dijk vill framlengja - PSG og Juve vilja Salah - Man Utd vill Rabiot
   fös 24. mars 2023 16:00
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
„Finnst að íþróttahreyfingin eigi að vera grimmari í því að kynna þetta"
Icelandair
Þorsteinn Halldórsson, landsliðsþjálfari.
Þorsteinn Halldórsson, landsliðsþjálfari.
Mynd: Aðsend
Frá Laugardalsvelli.
Frá Laugardalsvelli.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Íslenska kvennalandsliðsins getur ekki spilað tvo vináttulandsleiki á heimavelli í apríl. Laugardalsvöllur er ekki tilbúinn í fótboltaleik á þessum árstíma.

Í dag var var landsliðshópur kvenna fyrir leiki gegn Sviss og Nýja-Sjálandi í apríl kynntur. Hópinn má sjá með því að smella hérna.

Ísland mætir Nýja Sjáland 7. apríl í Antalya í Tyrklandi og Sviss 11. apríl í Zürich í Sviss. Það kom ekki til greina að spila á Laugardalsvelli þar sem það er einfaldlega ekki hægt.

„Það er ekki hægt að spila á Laugardalsvelli 7. og 11. apríl," sagði Þorsteinn en völlurinn er ekki tilbúinn í fótboltaleik. „Við getum ekki boðið upp á það."

Það hefur verið mikil umræða um Laugardalsvöll síðustu 10-15 árin, enda er völlurinn barns síns tíma. Það hefur verið umræða um nýjan þjóðarleikvang í langan tíma en ekkert hefur gerst í þeim málum hjá íslenskum stjórnvöldum.

„Mér finnst íþróttasamfélagið ekki nægilega sterkt í að tala fyrir því að íþróttir eru ekki byrði á samfélaginu. Þetta er ekki bara kostnaður fyrir ríki og sveitarfélög. Ég sem þjálfari borga skatta eins og allir aðrir," sagði Þorsteinn sem er greinilega með mikla skoðun á þessu.

„Íþróttafélög og þjálfarar borga fullt af sköttum. Ríki og sveitarfélög fá fullt af tekjum frá fólki sem vinnur í íþróttahreyfingunni. Mér finnst að það eigi að taka þetta saman, ÍSÍ og KSÍ eiga að taka þetta saman - hvað fótboltasamfélagið sem heild borgar til samfélagsins varðandi skatta og allt sem fylgir því. Það er fullt af peningum."

„Það er ekki þannig að þjóðarleikvangur sé bara kostnaður, það er bara bull. Hreyfingin sem slík er risahreyfing. Fótboltasamfélagið er með 30 þúsund iðkendur. Gefum okkur það að 30 þúsund iðkendur borgi 100 þúsund krónur eða meira á ári fyrir að taka þátt. Það er ágætis peningur. Það er fullt af peningum sem koma til ríkis og sveitarfélaga frá íþróttafélögum. Svo erum við líka að tala um öll önnur störf og allt sem tengist þessu. Það er gríðarlegt fjármagn líka," sagði Steini og bætti við:

„Mér finnst að íþróttahreyfingin eigi að vera grimmari í því að kynna þetta. Fótbolti er hluti af forvarnarstarfi og slíku, en við eigum að vera sterkari í þessum hluta - að sýna fram á að hreyfingin sé stór, öflug og ekki þurfalingur á þjóðfélagið. Hún er að gefa af sér fullt af peningum líka, er að skapa fjármuni inn í samfélagið líka."

Hér fyrir neðan má sjá viðtal sem var tekið við Steina eftir fundinn í dag.

Sjá einnig:
Mögulegir heimavellir Íslands í útlöndum - Þjóðarleikvangurinn á Tenerife?
Steini hefur áhyggjur: Fær enga möguleika á því að sanna sig
Athugasemdir
banner
banner