Man City gerir tilboð í Olmo - Barcelona reynir líka að fá spænska landsliðsmanninn - Wan-Bissaka vill ekki fara til West Ham
   fös 24. mars 2023 17:53
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Var ósammála ráðgjöfunum - „Þeirra ráð komu mér verulega á óvart"
Ómar Smárason, samskiptastjóri KSÍ.
Ómar Smárason, samskiptastjóri KSÍ.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Klara Bjartmarz, framkvæmdastjóri KSÍ.
Klara Bjartmarz, framkvæmdastjóri KSÍ.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Fyrir utan höfuðstöðvar KSÍ.
Fyrir utan höfuðstöðvar KSÍ.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Guðni Bergsson sagði af sér í kjölfar krísunnar.
Guðni Bergsson sagði af sér í kjölfar krísunnar.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
KSÍ lenti í mikilli krísu árið 2021.
KSÍ lenti í mikilli krísu árið 2021.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Frá Laugardalsvelli.
Frá Laugardalsvelli.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Jóhann Ingi Hafþórsson, fréttamaður á Morgunblaðinu, skilaði nýverið af sér BA-ritgerð sem ber heitið: „Verkferlar KSÍ í kjölfar krísu," en hægt er að nálgast ritgerðina í heild sinni með því að smella hérna.

Í ritgerðinni er fjallað um þá miklu krísu sem KSÍ lenti í haustið 2021 vegna meintra kynferðisbrota nokkurra landsliðsmanna og viðbragða við ásökunum þess efnis. Krísan varð til þess að Guðni Bergsson, þáverandi formaður, sagði af sér ásamt allri stjórninni.

Í ritgerðinni er rætt við Ómar Smárason, samskiptastjóra KSÍ, sem og Klöru Bjartmarz, framkvæmdastjóra sambandsins. Í viðtölum við þau kemur ýmislegt áhugavert fram.

Ómar segir meðal annars í ritgerðinni að hann hafi verið ósammála því hvernig tekist var á við krísuna sem þarna var að myndast. Guðni, sem þá var formaður, fór í viðtal við Kastljós á RÚV í kjölfar umræðu í samfélaginu vegna pistils sem Hanna Björg Vilhjálmsdóttir skrifaði um ofbeldi innan fótboltahreyfingarinnar á Íslandi. Í viðtalinu sagði Guðni að hvorki kvartanir né tilkynningar höfðu borist KSÍ með formlegum hætti vegna kynferðisbrota. Það reyndist svo ekki rétt og í kjölfarið fór snjóboltinn að rúlla.

KSÍ réði til sín ráðgjafafyrirtæki til að hjálpa við að takast á við krísuna stóru, en Ómar var ekki sáttur með það hvernig fyrirtækið tók á málinu - vildi gera eins lítið úr því og hægt var. Þessi krísa var öðruvísi en sambandið hafði áður tekist á við.

„Þau voru að reyna að eyða einhverri umræðu sem var ekkert að fara að hverfa," sagði Ómar. „Aftur vildi ég stíga fram og segja nákvæmlega þetta, hvaða reglur gilda. Það voru mín ráð allan tímann. Þegar ráðgjafarnir koma inn, er önnur ákvörðun tekin."

Ómar segir jafnframt að það hafi verið slæm ákvörðun fyrir sambandið að Guðni hafi farið í viðtalið hjá RÚV þar sem Guðni hafi ekki náð að koma sínu sjónarhorni fram. „Það var alls ekki góð hugmynd að fara í Kastljósviðtal, því við vorum alveg meðvituð um hver afstaða RÚV gagnvart KSÍ væri, hún var mjög neikvæð. Við fundum það í öllum samtölum okkar við fréttamenn RÚV. Við vissum hvaða agenda RÚV var að keyra og því var ekki skynsamlegt að fara í þetta viðtal."

Búa til einhverja þoku og slá ryk í augun á fólki
Hann segir að ákvörðunin um að fara í viðtalið hjá Kastljósi hafi verið tekin af Guðna og ráðgjafafyrirtækinu sem var fengið inn til að aðstoða við krísuna. Ómar var í sérstöku krísuteymi innan KSÍ en hætti þar sem hann var ósammála þeim leiðum sem voru teknar.

„Það sem við gerðum, vegna þess að við höfum aldrei þurft að díla við krísu af þessari stærðargráðu né um þetta umfangsefni, fengum við til okkar fyrirtæki sem hefur reynslu af krísustjórnun og öðrum verkefnum. Við fengum til okkar sérfræðinga til að hjálpa okkur. Þeir gáfu okkur sín ráð. Ég var áfram í þessu teymi og gaf mín ráð. Ég fékk það á tilfinninguna í þessari ráðgjöf frá þessu fyrirtæki að þau væru að reyna að búa til einhverja þoku og slá ryk í augun á fólki í staðinn fyrir að segja hlutina eins og þeir eru og leyfa fólki að hafa skoðun á því," segir Ómar.

„Sem er að mínu mati miklu betra að gera, alltaf. Þannig upplifði ég þetta og á endanum varð þetta til þess að ég sagði mér frá þessu teymi, steig út úr því. Eftir sátu þá ráðgjafarnir og þáverandi formaður. Mín ráð og ráðgjafateymisins voru allt önnur og þeirra ráð komu mér verulega á óvart, ef ég er alveg hreinskilinn. En þarna fengum við sérfræðinga inn, sem auðvitað vita betur og þegar maður ræður sérfræðinga inn á maður að hlusta á þá og fylgja ráðum þeirra eftir bestu getu. Eftir á að hyggja voru það mistök. Við hefðum ekki átt að gera það. Ég hafði gefið mín ráð, það var ekki hlustað á þau eða farið eftir þeim í neinum tilfellum. Ég ákvað því að mínum tíma væri betur varið fyrir utan teymið"

Ómar segir að það sé betra að segja satt í krísu, ef ekki þá sé það bara betra að þegja. „Þú átt að segja sannleikann, það er regla í krísustjórnun sem ég lærði. Það er tvennt í boði; segðu sannleikann og ef þú getur ekki sagt sannleikann, ekki segja neitt."

Samskiptastjórinn segir að það hafi verið sárt að sjá hversu einhliða fréttaflutningurinn - gegn KSÍ - var út af viðtalinu, það hafi enginn staðið með þeim. Hann telur jafnframt að kynferðisofbeldi innan fótboltahreyfingarinnar sé ekki stærra vandamál en annars staðar, það sé sama hlutfall af fávitum alls staðar.

Höfum reynt að vanda okkur
Orðspor KSÍ versnaði við þessa krísu og hvernig tekið var á henni en Klara og Ómar segja að sambandið hafi unnið hart að því að bæta orðsporið á nýjan leik. KSÍ er enn að vinna að því að öðlast fyrra traust.

„Við höfum reynt að vanda okkur. Saman tekið erum við að reyna að vanda til verka og reyna eins og við getum að birta myndir úr því jákvæða í starfinu," segir Klara en hún segir mannorðið betra árið 2022 en 2021.

„Ég held að almennt sé tiltrúin að aukast. Við höfum reynt að halda á lofti jákvæðum dæmum um okkar starfsemi. Það eru fleiri sem eru tilbúnir til að hlusta og gagnrýnendum hefur fækkað. Auðvitað á gagnrýnin rétt á sér og allt það en ég held að fólk sé pínulítið búið að fá nóg af þessari umræðu."

Hún segir að KSÍ hafi markvisst reynt að fækka fréttum um sambandið í kjölfar krísunnar. „Markvisst síðasta haust vorum við að reyna að fækka fréttum um okkur. Reynum að vera ekki í fréttum, sögðum við. Við reynum að gefa færri færi á fyrirsögnum."

KSÍ hefur þá hafið fræðslu til að ala upp betri leiðtoga. „Þegar kemur að kynferðisofbeldi erum við að fara af stað með fræðslu fyrir leikmenn landsliðanna, stafsmenn landsliðanna og stjórnar KSÍ... Við erum að stilla upp sérstakt námsefni fyrir hvert landsliðsstig. Þú ert ekki að segja það sama við U15 ára eða U16 ára landslið og svo A-landslið. Þú ert svo ekki að fara að segja það sama við stráka og stelpur, held ég. Við kunnum þetta ekki og þess vegna erum við að ráða sérfræðinga. En að fyrirbyggja krísur, við erum að reyna að ala upp betri leiðtoga og betri fyrirmyndir."

Klara vill að KSÍ verði klárara og undirbúnari ef önnur krísa kemur upp, en hún og Ómar gagnrýna bæði ÍSÍ fyrir forystuleysi þegar kemur að slíkum málum. „Við erum samt að taka stór skref í þessu, með forvörnum og öðru. ÍSÍ er ekki að gera rassgat, ekki frekar en HSÍ eða KKÍ. Við erum ein í þessu. Allir fylgja okkur og elta okkur. Við erum að átta okkur á því að við erum leiðtogar í íslenskri íþróttahreyfingu, það er ekki ÍSÍ. Það eru allir að horfa á KSÍ," sagði Ómar.

Hægt er að lesa ritgerðina í heild hérna en í lokaorðum segir: „Starfsemi Knattspyrnusambands Íslands er í raun lítið breytt og sambandið heldur sínu striki. KSÍ hefur þó ráðist í einhvers konar fyrirbyggjandi aðgerðir vegna krísunnar og ber þar hæst að landsliðsfólk fær aukna fræðslu í kynferðisbrotamálum... Þegar öllu er á botninn hvolft er ljóst að KSÍ alls ekki tilbúið að takast á við þessa krísu og endaði á því að súpa seyðið af því. Starfsfólk sambandsins vissi lítið um hvernig það átti að bera sig, eins og ósamstaða innan sambandsins gefur til kynna."
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner