Liverpool og Arsenal sýna Mbeumo áhuga - Hvenær tekur Amorim við Man Utd? - Arsenal vinnur að því að fá Sane
banner
   mið 24. júlí 2024 18:00
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Samsungvellinum
Gummi Kristjáns: Það skemmtilegasta sem maður gerir
Guðmundur Kristjánsson, fyrirliði Stjörnunnar.
Guðmundur Kristjánsson, fyrirliði Stjörnunnar.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Stjarnan spilar við Paide frá Eistlandi á morgun.
Stjarnan spilar við Paide frá Eistlandi á morgun.
Mynd: Fótbolti.net - Haukur Gunnarsson
„Ég er hrikalega vel stemmdur, þetta er það skemmtilegasta sem maður gerir - að spila Evrópuleiki. Ég kvarta allavega ekki. Það er mikil spenna í hópnum," sagði Guðmundur Kristjánsson, fyrirliði Stjörnunnar, á fréttamannafundi í dag.

Stjarnan mætir á morgun Paide Linnameeskond frá Eistlandi í forkeppni Sambandsdeildarinnar. Þetta er önnur umferð en Stjarnan lagði Linfield frá Norður-Írlandi í fyrstu umferð.

„Það voru ein­hverj­ir að spila sína fyrstu Evr­ópu­leiki og nú er það frá og menn þekkja þetta. Menn sjá hvernig það er að taka svona rimmu heima og að heiman og hversu mik­il­vægt það er að fara með góð úrslit út þannig að ég reikna með að menn séu kokhraust­ir eftir síðustu rimmu," sagði Gummi á fundinum en honum fannst einvígið gegn Linfield skemmtilegt.

„Það var bara gaman. Það var fullmikil spenna þarna en þetta voru frábærar aðstæður og geggjaður leikvangur. Við fórum aðeins frá því í seinni leiknum að spila okkar hefðbundna leik. En þetta var bara hörkuleikur, lið sem sendir mikið fyrir og er mjög beinskeytt. Við þurftum að díla við marga bolta og þá getur alls konar gerst. Þetta var fulltæpt en mér fannst við samt heilt yfir spila góða rimmu yfir tvo leiki."

Ef Stjarnan vinnur Paide munu Garðbæingar etja kappi við Häcken frá Svíþjóð eða Dudelange frá Lúxemborg í næstu umferð. Í Garðabænum vonast menn auðvitað til að komast enn lengra.

„Það væru auðvitað vonbrigði að detta út núna, ég get ekki sagt neitt annað. Ég held að möguleikarnir séu góðir og sérstaklega ef við nýtum heimavöllinn vel. Við erum allir mjög vongóðir þó þetta verði hörkurimma," sagði Guðmundur jafnframt á fundinum.
Athugasemdir
banner
banner