Arsenal og Liverpool eiga möguleika á að fá Vini Jr - Gravenberch fær nýjan samning - Ekitike biðst afsökunar
banner
   mið 24. september 2025 14:05
Elvar Geir Magnússon
Ekki fjölgað í 64 lið á HM þrátt fyrir fundinn í Trump turninum
Gianni Infantino, forseti FIFA.
Gianni Infantino, forseti FIFA.
Mynd: EPA
Mynd: EPA
FIFA hyggst ekki fjölga þátttökulöndum á HM 2030 í 64 þrátt fyrir að forseti sambandsins, Gianni Infantino, hafi fundað um hugmyndina með leiðtogum fótboltasambands Suður-Ameríku.

Fundurinn fór fram í Trump turninum í New York þar sem FIFA hefur opnað skrifstofur. Fótboltasamband Suður-Ameríku, Conmebol, bað formlega um það fyrr á þessu ári að HM 2030 muni innihalda 64 lið en þá mun heimsmeistaramótið fagna 100 ára afmæli.

Samkvæmt heimildum Guardian er ljóst að hugmyndirnar muni aldrei ná fram að ganga. HM á næsta ári verður það fyrsta sem mun innihalda 48 lið.

Mótið 2030 verður haldið í þremur löndum - Spáni, Portúgal og Marokkó - en að auki verða þrír leikir í Argentínu, Paragvæ og Úrúgvæ til að halda upp á að 100 ár verða liðin frá fyrsta mótinu. Það mót var haldið í Úrúgvæ og voru það heimamenn sem báru sigur úr býtum eftir úrslitaleik við Argentínu.

FIFA þing verður í Zurich í næsta mánuði en fjölgun á HM er ekki á dagskrá þingsins.

„Gianni myndi ekki fá samþykkta fjölgun á þinginu þó hann myndi vilja það. Mikill meirihluti þeirra sem sitja við borðið eru á því að 64 liða mót myndi skaða keppnina. Það yrðu of margir óspennandi leikir og hætta á að viðskiptamódelið myndi skaddast," sagði heimildarmaður innan FIFA við Guardian.

Ef HM yrði fjölgað í 64 lið þá myndu rúmlega fjórðungur aðildarlanda FIFA taka þátt í mótinu en þau er 211. Mótið myndi innihalda 128 leiki eða tvöfalt fleiri en voru á síðasta HM, í Katar.
Athugasemdir
banner
banner