þri 24. nóvember 2020 15:57
Elvar Geir Magnússon
Það var kaupstaðalykt af þvoglumæltum Grealish
Grealish angaði af áfengi.
Grealish angaði af áfengi.
Mynd: Twitter
Það var sterk áfengislykt af Jack Grealish og hann var þvoglumæltur eftir að hafa klessukeyrt Range Rover bifreið sína fyrr á árinu. Þetta segir vitni sem var á staðnum.

Grealish, sem er fyrirliði Aston Villa og leikmaður enska landsliðsins, var valtur og klæddur í einn svartan og annan hvítan inniskó eftir atvikið í mars.

Grealish keyrði utan í tvær bifreiðar sem búið var að leggja og utan í húsvegg en hann óhlýðnaðist skipunum um útgöngubann eftir fyrstu bylgju kórónaveirufaraldursins á Bretlandi.

Hann var farinn af vettvangi áður en lögreglan kom á staðinn.

Hann skellti sér í partí heima hjá Ross McCormack, fyrrum liðsfélaga sínum hjá Aston Villa og eftir það settist hann undir stýrið.

Grealish baðst afsökunar á hegðun sinni í myndbandsskilaboðum sem hann birti á samfélagsmiðlum eftir fréttaflutning af málinu og þá fékk hann sekt frá Aston Villa.

Málið var tekið fyrir í réttarsal í dag en Grealish mætti ekki sjálfur. Hann viðurkenndi þó í gegnum lögmann sinn að hafa sýnt gáleysi við akstur.

Dæmt verður í málinu í næsta mánuði en líklegt er að Grealish muni missa ökuréttindi sín tímabundið.
Athugasemdir
banner
banner
banner