Pickford klárar ferilinn hjá Everton - Arsenal gæti fengið Kolo Muani - Van Nistelrooy leitar til Man Utd
   fös 24. nóvember 2023 15:10
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
„Einhver yndislegasti maður sem ég hef nokkurn tímann kynnst"
Hassan Jalloh yfirgefur herbúðir HK
Hassan Jalloh.
Hassan Jalloh.
Mynd: Jónína Guðbjörg Guðbjartsdóttir
Hassan Jalloh hefur yfirgefið herbúðir HK en Ómar Ingi Guðmundsson, þjálfari HK, staðfesti þetta við Fótbolta.net núna á dögunum.

Hassan er fjölhæfur sóknarmaður sem gekk í raðir HK fyrir sumarið 2022. Hann hjálpaði liðinu að komast upp úr Lengjudeildinni og spilaði svo 24 leiki í Bestu deildinni í sumar.

Ómar Ingi talaði gríðarlega vel um Hassan í samtali við Fótbolta.net er hann var spurður út í leikmanninn.

„Við tókum ákvörðun undir lok tímabilsins að leiðir myndu skilja. Þetta er einhver yndislegasti maður sem ég hef nokkurn tímann kynnst," sagði Ómar.

„Hann er í uppáhaldi hjá stuðningsmönnum í Kórnum og hann gerði fína hluti fyrir okkur. Í framhaldinu hentar hann hins vegar ekki fyrir okkur. Við kvöddum hann og þökkuðum honum fyrir samstarfið. Hvað hann tekur sér fyrir hendur verður að koma í ljós."

Eins og Ómar segir þá var fólk mjög hrifið af Hassan í efri byggðum Kópavogs.

„Það er eitthvað sem hann ávinnur sér sjálfur. Hann er ótrúlega hugljúfur og gefur sig á tal við alla. Hann fer niður á völl og er að leika við krakkana. Hann gefur sér tíma í að stoppa og spjalla. Hann gat varla gengið um gangana í Kórnum án þess að það væru 20 krakkar væru komnir á hurðina í klefanum. Það er staða sem hann bjó sér til með almennilegheitum og öðru. Hann er líka þannig leikmaður að það eru 'highlights' í því sem hann gerir. Krakkarnir sogast líka að því," sagði Ómar.

Varnarmaðurinn Ahmad Faqa verður þá líklega ekki áfram hjá HK eftir að hafa verið á láni hjá félaginu þetta tímabilið. Hann kom frá AIK í Svíþjóð. Hægt er að hlusta á allt spjallið í spilaranum hér fyrir neðan.
Innkastið - Ómar Ingi um landsliðið og HK
Athugasemdir
banner