Van Dijk vill framlengja - PSG og Juve vilja Salah - Man Utd vill Rabiot
banner
sunnudagur 15. september
Besta-deild karla
laugardagur 14. september
Lengjudeild karla
þriðjudagur 10. september
Undankeppni EM U21
Æfingamót í Slóveníu
mánudagur 9. september
Þjóðadeildin
laugardagur 7. september
Meistaradeild kvenna - forkeppni
Lengjudeild karla
Besta-deild kvenna - Neðri hluti
Lengjudeild kvenna
Æfingamót U19 karla
föstudagur 6. september
Þjóðadeildin
Undankeppni EM U21
fimmtudagur 5. september
Æfingamót U19 karla
miðvikudagur 4. september
Forkeppni Meistaradeildar kvenna
mánudagur 2. september
Besta-deild kvenna - Neðri hluti
mánudagur 26. ágúst
Besta-deild karla
2. deild karla
fimmtudagur 22. ágúst
Besta-deild karla
Lengjudeild karla
Lengjudeild kvenna
Sambandsdeild UEFA - Umspil
miðvikudagur 21. ágúst
2. deild karla
laugardagur 17. ágúst
Besta-deild karla
föstudagur 16. ágúst
Mjólkurbikar kvenna
mánudagur 12. ágúst
Besta-deild karla
þriðjudagur 10. september
Engin úrslit úr leikjum í dag
banner
mán 27.mar 2023 12:40 Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Magazine image

Byrjaði berfættur í drullunni en eltir núna draum sinn á Íslandi

Lífið hefur ekki alltaf verið auðvelt fyrir Hassan Jalloh en hann ákvað í fyrra að elta drauminn. Hann fór til Evrópu og ætlaði ekki aftur heim fyrr en hann var búinn að skrifa undir samning um að vera atvinnumaður í fótbolta. Hann kom til Íslands á reynslu og það gekk ekki allt eftir plani, en það samt sem áður fór það vel á endanum. Hassan er með háleit markmið og stefnir á að fylgja í fótspor goðsagna frá Ástralíu.

„Ég flutti til Ástralíu árið 2010. Við vorum 14 úr fjölskyldu minni sem fórum saman í leit að betra lífi," segir Hassan Jalloh, leikmaður HK, í samtali við Fótbolta.net. Þegar fréttamaður hringir er Hassan í hitanum á Spáni í æfingaferð með liðsfélögum sínum. Hann minnist á að það er aðeins heitara á Spáni en á Íslandi, en veturinn er búinn að vera mjög erfiður hér á landi.

Hassan er 24 ára gamall en hann er fæddur í Síerra Leóne í Afríku. Fjölskylda hans fór til Ástralíu árið 2010 í leit að betra lífi en lífið var erfitt í fæðingarlandi hans.

„Saga landsins mín er erfið því þar er mikil fátækt og það var borgarastríð þar. Að fara til Ástralíu breytti lífi mínu og ég er mjög þakklátur fyrir það. Ég man vel eftir lífinu í Síerra Leóne. Ég ólst að mestu leyti upp þar. Ég man að mamma og pabbi gerðu alveg ótrúlega mikið bara til þess að setja mat á borðið fyrir okkur. Við fengum tækifæri til að fara til Ástralíu þökk sé eldri bróður mínum. Hann hjálpaði okkur að komast þangað og það breytti lífi okkar allra. Ég man ekki eftir miklu góðu frá Síerra Leóne því lífið var erfitt þar. Þetta var góð breyting fyrir okkur."

„Við bjuggum 14 saman í einu húsi í Gíneu og það var erfitt. Þegar við komum til Ástralíu þá tók bróðir minn á móti okkur."



„Stór hluti fjölskyldu minnar kom með okkur, 14 saman. Þetta var stór hópur og það er ekki auðvelt ferðalag frá Afríku til Ástralíu. Þetta var mikil áskorun en þetta breytti lífi okkar allra. Við ferðuðumst fyrst til Gíneu sem er hinum megin við landamærin. Við vorum þar í tvö ár á meðan bróðir minn í Ástralíu var að reyna að hjálpa okkur að komast yfir. Það tók langan tíma, um tvö og hálft ár. Bróður mínum tókst svo að safna nægilega miklum pening til að hjálpa okkur að komast yfir. Við fórum svo öll til Ástralíu. Þetta var mjög erfitt ferli. Við bjuggum 14 saman í einu húsi í Gíneu og það var erfitt. Þegar við komum til Ástralíu þá tók bróðir minn á móti okkur. Hann og frændi minn sáu um okkur og hjálpuðu okkur að aðlagast."

Hassan byrjaði að spila fótbolta í Síerra Leóne en þar voru aðstæður til fótboltaiðkunnar ekki góðar.

„Ég man eftir því að hafa byrjað að spila fótbolta í Síerra Leóne. Á þeim tíma átti ég ekki neina fótboltaskó. Við spiluðum í sandölum í drullunni. Það voru engir grasvellir. Það var ekki auðvelt en fékk mig til að elska leikinn meira. Núna er ég hérna og spila við flottar aðstæður, en ég er vanur að spila berfættur í drullunni í Sierra Leóne. Ég var frekar lítill, en ég spilaði með stærri strákum. Það hjálpaði mér mikið."

Vildi alltaf feta í fótspor Tim Cahill
Hann segir að það hafi verið draumi líkast að flytja til Ástralíu. „Það var mikil breyting að flytja til Ástralíu. Þetta var draumur að rætast. Þú fékkst fría menntun, fría heilbrigðisþjónustu og þau hjálpa krökkum sem koma sem flóttamenn mikið. Þetta voru hlutir sem ég bjóst aldrei við því að fá. Ég tók þessu ekki sjálfsögðum hlut."

Hann byrjaði fljótlega að æfa fótbolta í Ástralíu en þar kallar fólk íþróttina 'soccer' eins og Bandaríkjamenn. „Ég kalla þetta fótbolta en Ástralarnir kalla þetta 'soccer'. Ég gekk um og spurði krakkana í hverfinu hvort þau vildu spila fótbolta en þá fékk ég rugbý bolta í hendurnar," segir Hassan og hlær.

„Einn besti vinur minn hjálpaði mér að komast inn í fótboltann í Ástralíu. Hann sá að það bjó eitthvað í mér. Við erum á sama aldri en hann fór með mig á æfingar, foreldrar hans skutluðu mér alltaf á æfingar. Ég fór að byrja að æfa og svo þróaðist það."



„Ég vildi alltaf feta í fótspor leikmanna eins og Tim Cahill og Harry Kewell."

Hassan byrjaði að æfa fótbolta í hverfinu sínu og endaði á því að komast í akademíuna hjá Sydney FC, sem er eitt stærsta félagið í Ástralíu.

„Sydney FC er eitt stærsta félagið í Ástralíu. Þeir hafa unnið marga titla. Það er stutt síðan þeir unnu deildina tvisvar í röð. Ég var hjá félagi sem heitir Bonnyrigg White Eagles og komst í aðalliðið þar þegar ég var um 17 ára gamall. Ég skoraði tvennu í fyrsta leiknum og endaði held ég sem þriðji markahæsti í deildinni. Félög sýndu mér athygli eftir það. Á þeim tíma var ég með ráðgjafa sem fór með mig til Sydney FC og ég fékk í kjölfarið samning þar. Það var ein besta reynslan á ferli mínum að vera hjá stóru félagi. Ég lærði svo mikið þar. Á hverjum degi hjálpa þeir ungum leikmönnum að læra og þróa sinn leik. Stundum vorum við að æfa í marga klukkutíma. Það hjálpaði mér mikið. Þetta var mjög gott skref á ferli mínum. Ég sá aðalliðsleikmennina æfa og leit upp til þeirra."

Hassan spilaði í kjölfarið með nokkrum félögum í neðri deildunum í Ástralíu. Eftir að hafa stigið upp úr meiðslum þá hjálpaði hann félagi sínu, APIA Leichhardt, að fara í bikarævintýri þar sem liðið sló meðal annars út úrvalsdeildarliðið Western Sydney Wanderers. Hann átti góðan leik þar og opnaði það dyr fyrir hann.

„Það var alltaf draumur minn að spila í Evrópu. Ef þú vilt ná árangri sem fótboltamaður þá þarftu að spila í Evrópu. Það er allt betra hérna. Það eru til margir ástralskir leikmenn sem hafa spilað í Evrópu, í ensku úrvalsdeildinni. Það er mikil virðing borin fyrir þeim í Ástralíu. Ég hef alltaf litið upp til þeirra því þeir komu í heimsókn í skólann til okkar. Þeir sögðu okkur frá því hvernig vegferðin hjá þeim. Ég vildi alltaf feta í fótspor leikmanna eins og Tim Cahill og Harry Kewell," segir Hassan.

„Ég hitti umboðsmann minn eftir tíma minn hjá APIA. Hann sagði mér að það væru tækifæri í Evrópu og það var eitthvað sem ég vissi að ég þyrfti að grípa með báðum höndum. Ég var mjög spenntur því ég er með þann draum að fylgja í fótspor goðsagna í Ástralíu."



HK var ekki upprunalega planið
Hassan segir að það hafi ekki verið upprunalega planið að fara í HK. Hann fór fyrst á reynslu til Fram, en fékk ekki samning þar. Svo æfði hann með Grindavík og Kórdrengjum áður en prófaði að fara á æfingar í Kórnum.

„Ég ætlaði ekki að fara frá Evrópu án þess að vera með samning, það var hugarfarið hjá mér - 110 prósent. Ég fékk hafnanir en ég ætlaði ekki að fara heim án þess að vera með samning."

„HK var ekki upprunalega planið þegar ég kom til Evrópu. Ég kom og fór á reynslu hjá Fram. Umboðsmaður minn sendi mig til Fram. Ég fór þangað og það gekk ekki upp. Ég fór í kjölfarið á reynslu til fleiri félaga sem vildu ekki fá mig, voru að leita að einhverju öðru. HK var það sem átti að gerast fyrir mig. Þegar ég fór þangað þá var allt rétt. Ég fann strax vel hjá félaginu og fólkið var svo vingjarnlegt. Áður en ég skrifaði undir fannst mér ég vera heima hjá mér," segir þessi öflugi leikmaður en hann var x-faktorinn í HK-liðinu í fyrra er liðið tryggði sig upp í Bestu deildina.

„Ég fór líka á reynslu hjá Grindavík og Kórdrengjum. Umboðsmaður minn þekkir til á Íslandi, en hann sagði við mig að HK væri síðasti möguleikinn. Þeir voru að leita að markaskorara. Ég vissi að þetta væri að duga eða drepast. Þeir voru líklega ekki að leita að erlendum leikmanni en ég reyndi bara að sýna þeim hvað ég gæti og þetta gekk upp. Ég var mjög ánægður með hvernig þetta kom til, það var mjög svalt."



Hann var með það hugfast að yfirgefa ekki Evrópu án þess að fá samning.

„Ég ætlaði ekki að fara frá Evrópu án þess að vera með samning, það var hugarfarið hjá mér - 110 prósent. Ég fékk hafnanir en ég ætlaði ekki að fara heim án þess að vera með samning. Ég veit hversu mikið ég hef lagt á mig til að komast á þennan stað. Það eru margir sem líta upp til mín í fjölskyldunni. Ég vil reyna að hjálpa foreldrum mínum og fjölskyldu minni."

Það er skrítið að flytja til Íslands eftir að hafa búið í Ástralíu og Síerra Leóne. Hassan sá í fyrsta sinn snjó er hann lenti á Keflavíkurflugvelli.

„Ég bjóst aldrei við því að ég myndi venjast kuldanum. Þetta var klikkun þegar ég kom. Ég held að þetta hafi verið einn versti vetur í sögunni. Þetta var hræðilegt, snjórinn hætti ekki að falla. Við æfðum stundum í snjónum og sáum ekki boltann. Ég hélt að ég myndi ekki venjast þessu þar sem ég er vanur að búa í miklum hita í Ástralíu. En ég hugsaði með mér að ég væri kominn hingað til þess að fá samning og til að ná árangri. Ég ætlaði að spilaði fótbolta hérna og ætlaði ekki að láta neitt stoppa það."

„Ég hafði aldrei séð snjó áður en kom hingað. Ég kann vel við hann þrátt fyrir þennan erfiða vetur í fyrra. Ég veit að það er mikið af fólki í Ástralíu og Síerra Leóne sem er að leggja mikið á sig til að vera í sömu sporum og ég. Að vera á Íslandi breytti lífi mínu, að sjá snjóinn; það minnti mig á að ég er að elta drauminn."



'Ég heiti Hassan'
Hassan getur ekki beðið eftir því að hefja leik í Bestu deildinni en það eru innan við tvær vikur í fyrsta leik núna. HK hefur leik gegn nágrönnunum sínum í Breiðabliki.

„Ísland var fyrsta stoppið mitt í leit að samningi. Þetta fór ekki eins og ég planaði en ég er ánægður með hvernig þetta fór. Síðasta tímabil var frábært. Við settum okkar markmið fyrir tímabilið og það var gott að sjá okkur tikka í þau box. Við lögðum mikið á okkur til að ná því. Við tókum þetta skref fyrir skref og það gekk upp. Við vorum staðráðnir í að fara upp," segir Hassan.

„Ísland er heimili mitt núna og mér líður mjög vel hérna. Þess vegna ákvað ég að vera áfram. Ég vil upplifa efstu deild. Ég horfði á leiki í deildinni í fyrra og ég vil taka þátt í þeim núna. Þegar við komumst upp varð ég strax spenntur að spila í Bestu deildinni. Þegar ég ólst upp vissi ég að þetta yrði ekki auðvelt. En um það snýst fótbolti, það er ekkert auðvelt. Ég hlakka mjög mikið til og er með fiðrildi í maganum. Við erum tilbúnir sem lið og munum gera okkar allra besta."

Hassan er mikill stuðningsmaður Arsenal og lítur upp til Bukayo Saka. Það er hans uppáhalds leikmaður í augnablikinu.

„Ég horfi mikið á evrópskan fótbolta. Ég geri það líka til þess að læra af öðrum leikmönnum. Ég veit að ég get orðið betri. Ég horfi alltaf á þá bestu. Ég horfi mest á Bukayo Saka, hann er minn uppáhalds leikmaður og ég dýrka það sem hann gerir; ég leyfi mér alltaf að hugsa að ég geti komist á þennan stað," segir Hassan en fréttamaður Fótbolta.net spyr hann þá hvort hann sé stuðninsmaður Arsenal.

„Ég er mikill Arsenal stuðningsmaður," segir Hassan og hlær. „Saka spilar í minni stöðu og hann er ótrúlegur leikmaður. Ég vona að ég geti einn daginn komist á svipaðan stað og hann. Ég er mjög ánægður með stöðuna hjá Arsenal og verð enn ánægðari eftir nokkrar vikur þegar þeir lyfta Englandsmeistarabikarnum."



Hassan er með háleit markmið.

„Ég vil fara eins langt og ég get í fótboltanum. Ég lít til dæmis upp til Saka. Hann spilar í ensku úrvalsdeildinni. Þú verður að leyfa þér að dreyma eins mikið og þú getur. Ég vil fara eins hátt og ég get. Ég tek þetta skref fyrir skref. Ég ætla að skora eins mikið og ég get í sumar, og hjálpa liðinu að halda sér uppi. Svo skoða ég hvað gerist. Ég er bara að byrja. Það hefur gengið vel en ég þarf að halda áfram að vera einbeittur og leggja mikið á mig. Ég er með rétta fólkið í kringum mig," segir Hassan.

Áður en fréttamaður skellti á símtalið til Spánar þá lék honum forvitni á að vita hvort Hassan væri búinn að læra einhverja íslensku á því ári sem hann hefur verið hér á landi. Þá sagði hann: 'Ég heiti Hassan' á flottri íslensku.

„Ég kann að segja það á íslensku. Það er það eina sem ég kann að segja. Ég skil ýmislegt en það er erfitt að tala íslensku. Ég ætla að reyna að læra meira. Þetta er mjög erfitt tungumál en það eru alltaf áskoranir í lífinu. Ég ætla að reyna að eiga samræður við þig á íslensku í lok tímabilsins," sagði Hassan að lokum en það verður mjög fróðlegt að fylgjast með þessum skemmtilega karakter í Bestu deildinni í sumar.

Sjá einnig:
Spá Fótbolta.net - 12. sæti: HK
Hin hliðin - Atli Þór Jónasson (HK)
Athugasemdir
banner
banner