þri 25. janúar 2022 12:29
Elvar Geir Magnússon
Sogndal kynnir Valdimar (Staðfest)
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Sóknarleikmaðurinn Valdimar Þór Ingimundarson er búinn að ganga frá samningi við norska félagið Sogndal til 2024. Þessi fyrrum leikmaður Fylkis kemur frá Strömsgodset.

Samkvæmt tilkynningu Sogndal náði félagið að vinna samkeppni frá öðrum félögum um Valdimar en hann var meðal annars orðaður við Östersund í Svíþjóð.

Hann er annar Íslendingurinn sem Sogndal fær til sín á síðustu dögum en Hörður Ingi Gunnarsson bakvörður kom frá FH.

Valdimar er 22 ára og sló í gegn í Pepsi Max deildinni með Fylki sumarið 2020 og var seldur til Strömsgodset. Hann byrjaði þá átta leiki af 13 fyrir norska liðið en byrjaði aðeins fjóra leiki á síðasta tímabili.

Hann lék sinn fyrsta A-lands­leik fyrr í þess­um þess­um mánuði þegar Ísland mætti Úganda í vináttulandsleik í Tyrklandi. Hann hefur leikið ell­efu leiki með 21-árs landsliðinu.

Fram kemur í norskum fjölmiðlum að kaupverðið sé um ein milljón norskra króna, eða tæplega 14,5 milljónir íslenskra króna. Fylkir, uppeldisfélag Valdimars, kemur til með að fá ákveðna prósentu af upphæðinni.

Sogndal spilar í næstefstu deild í Noregi en liðið stefnir á að komast upp í efstu deild á næsta tímabili.


Athugasemdir
banner
banner
banner
banner