banner
   mán 25. maí 2020 20:26
Brynjar Ingi Erluson
Heimir Guðjóns: Þurftum að liggja töluvert yfir þessu
Heimir Guðjónsson
Heimir Guðjónsson
Mynd: Fótbolti.net - Tom
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Heimir Guðjónsson, þjálfari Vals, var í löngu viðtali í útvarpsþætti Fótbolta.net á X-inu um helgina en hann ræddi þar við þá Elvar Geir Magnússon og Tómas Þór Þórðarson um sumarið.

Heimir hefur þjálfað í Færeyjum síðustu tvö árin en tók við Val af Ólafi Jóhannessyni sem var látinn fara frá félaginu.

Hann segir að HB og Valur séu tvö ólík verkefni en hann var með töluvert yngri hóp í Færeyjum. Hann er nú með afar reynda menn í Valsliðinu sem undirbýr sig fyrir tímabilið

„Ég fer ekki í manngreiningsálit þegar ég er að þjálfa en auðvitað er þetta öðruvísi. Hjá HB var ég með töluvert yngra lið og ekki margir eldri leikmenn," sagði Heimir.

„Símon Samuelsen og Binni Hlö, stórvinur ykkar. Þetta voru reyndustu mennirnir í liðinu en það var meiri kennsla í því. Þú ert með leikmenn hjá Val sem hafa unnið titla og gert góða hluti í deildinni þannig það er ekki sama nálgunin þar."

Fordæmalausir tímar

Valur var í fullum undirbúningi fyrir tímabilið er kórónaveiran herjaði allan heiminn. Allar æfingar voru bannaðar en í dag var fyrsti dagurinn þar sem lið mega byrja að spila æfingaleiki og æfa venjulega.

„Þetta er auðvitað erfitt að eiga við þetta og Jói sem sér upp styrktarþjálfunina stóð sig frábærlega með þessar Zoom æfingar og svo þurftu leikmennirnir að skila ákveðnum hlaupatölum og hitt bíóið byrjar eftir á þegar við þurfum að vera með menn í hópum."

„Við í þjálfarateyminu þurftum að liggja töluvert yfir þessu til að finna æfingar sem hentuðu þessu."

„Við erum að spila æfingaleik við Keflavík á miðvikudaginn og við munum nota þessar æfingar til að fara í taktíska hluti og undirbúa liðið fyrir þann leik. Þetta verður að vera nóg og mótið er sett upp svona og þá verður þetta að vera nóg og við þurfum að nýta tímann vel."


Staðráðnir í að gera betur en í fyrra

Valsmenn spila þrjá æfingaleiki áður en PepsiMax-deildin fer af stað. Heimir hefur horft á leiki frá síðasta tímabili til að skoða hvað fór úrskeiðis en liðið er staðráðið í því að gera betur.

„Við ætlum að spila þrjá leiki. Keflavík, Breiðablik og Fylki. Þetta gengur jafnt yfir alla og þetta var niðurstaðan og við sættum okkur við hana og nýta tímann vel og æfa og vera klárir 13. júní."

„Ég er búinn að horfa á slatta af leikjum frá síðasta tímabili og með það að hliðsjón að við þurfum að vinna með ákveðna hluti en auðvitað má maður ekki missa sig í því að vera að horfa of mikið á leiki og eyða of miklum tíma í að spá í þetta. Ég tek við liðinu og þá byrja menn á núllpunkti og vinna út frá því."

„Ég held að það sé of margþætt og þegar Elvar hringdi í mig á fimmtudaginn og bað mig um að koma í þetta viðtal þá átti þetta ekki að vera meira en 45 mínútur. Við höfum bara ekki tíma í þetta!"

„Ég held að menn átti sig á því að frammistaðan á síðustu leiktíð var engan vegin nógu góð og allir staðráðnir í því að gera betur og Valur er á þeim stað þar sem það er gerð krafa á leikmannahópinn og þá sem standa að teyminu að það sé í toppbaráttu og menn þurfa að standa undir því."

Heimir segir að deildin hafi styrkst töluvert síðustu ár en talið er að sex lið geti barist um titilinn í ár.

„Víkingur leit mjög vel út fyrir Covid og FH er með sterkt byrjunarlið og Stjarnan komnir með tvo mjög reynda menn í brúnna og menn sem kunna þetta. Svo ertu með Breiðablik þar sem Óskar Hrafn virðist vera að gera fína hluti og svo KR sem þarf að komast í gegnum þar sem allir eru með sín hlutverk á hreinu og það er frábært fyrir deildina og áskorun fyrir okkur að deildin sé að styrkjast," sagði hann ennfremur.
Heimir Guðjóns í ítarlegu viðtali um fótboltasumarið
Athugasemdir
banner
banner
banner