PSG íhugar að reyna við Rashford - Dewsbury-Hall orðaður við Chelsea - Archie Gray eftirsóttur
   þri 25. júní 2024 14:43
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Elfar Árni á förum frá KA?
Ekki verið í stóru hlutverki að undanförnu.
Ekki verið í stóru hlutverki að undanförnu.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Reynst KA mönnum mjög drjúgur síðasta áratuginn.
Reynst KA mönnum mjög drjúgur síðasta áratuginn.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Elfar Árni Aðalsteinsson hefur ekki verið í stóru hlutverki hjá KA það sem af er tímabili.

Samkvæmt heimildum Fótbolta.net hefur hann átt samtal við Þór um möguleg félagaskipti en talið er ólíklegt að þau skipti gangi í gegn. Hann var orðaður við Þór í vetur áður en Þórsarar lönduðu Rafael Victor.

Elfar Árni er einnig sterklega orðaður við heimkomu í Völsung en félagið hefur mikinn áhuga á að fá hann.

Framherjinn reynslumikli byrjaði þrjá af fyrstu fimm deildarleikjum KA en hefur síðan komið tvívegis inn á af bekknum, tvívegis verið ónotaður varamaður og tvívegis verið utan hóps í deildinni. Annað skiptið utan hóps var gegn Fram á sunnudag.

Hann hefur þá komið inn á sem varamaður í öllum þremur leikjum KA í Mjólkurbikarnum. Elfar hefur skorað eitt mark í sumar og hefur samkvæmt Transfermarkt lagt upp eitt mark.

Í 239 leikjum fyrir KA hefur Elfar skorað 88 mörk og lagt upp 18. Á síðasta tímabili skoraði hann fjögur mörk í 24 deildarleikjum og eitt mark í forkeppni Sambandsdeildarinnar.

Lestu um leikinn: KA 3 -  2 Fram

Elfar er Húsvíkingur og verður hann 34 ára í ágúst. Hann kom til KA frá Breiðabliki fyrir tímabilið 2015 og er því á sínu tíunda tímabili á Akureyri. Samningur hans við félagið rennur út eftir tímabilið.

Hann er í samkeppni við Svein Margeir Hauksson, Ásgeir Sigurgeirsson og Viðar Örn Kjartansson um mínútur í liðinu.

Elfar vildi sjálfur ekki tjá sig um stöðu sína þegar leitast var eftir því en Sævar Pétursson, framkvæmdastjóri KA, hafði eftirfarandi að segja:

„Elfar er mikilvægur hluti af okkar hóp, stefnan er að hann verði með okkur í þessari holu sem við erum í, hjálpi okkur að komast upp úr henni. Þór heyrði í okkur í vetur með Elfar, það fór svo ekki neitt lengra. Það hafa engar fyrirspurnir komið inn á mitt borð. Ég efast um að það verði einhver breyting hjá okkur nema þá að við finnum eitthvað í staðinn, við viljum alls ekki minnka hópinn okkar."

KA situr í 11. sæti Bestu deildarinnar og er næsti leikur liðsins gegn HK á útivelli á föstudaginn.
Athugasemdir
banner
banner
banner