Liverpool og Arsenal sýna Mbeumo áhuga - Hvenær tekur Amorim við Man Utd? - Arsenal vinnur að því að fá Sane
banner
   fim 25. júlí 2024 09:20
Elvar Geir Magnússon
Handalögmál í jafntefli Chelsea og Wrexham
Levi Colwill náði ekki að hemja skap sitt.
Levi Colwill náði ekki að hemja skap sitt.
Mynd: Getty Images
Mynd: EPA
Chelsea og Wrexham gerðu 2-2 jafntefli í æfingaleik á hálftómum Levi's leikvangnum, heimavelli NFL félagsins San Francisco 49ers. Mönnum var heitt í hamsi og handalögmál áttu sér stað eftir aðeins um tveggja mínútna leik.

Levi Colwill náði ekki að hemja skap sitt eftir að hafa orðið fyrir tæklingu frá James McClean. Colwill tók þéttingsfast um hálsmálið á treyju McClean og þurfti fjölmennan hóp til að skilja þá að.

Ef um keppnisleik hefði verið að ræða hefði rauði liturinn klárlega farið á loft en báðir sluppu þeir við spjald.

Slæm varnarmistök Chelsea
Chelsea fékk á sig tvö mörk eftir varnarmistök en Enzo Maresca, nýr stjóri Chelsea, segir að liðið eigi að spila frá aftasta manni og það gæti kostað fleiri mörk eins og þessi.

Chelsea var 1-0 yfir í hálfleik eftir mark Christopher Nkunku en mörk Luke Bolton og Jack Marriott komu C-deildarliði Wrexham í óvænta forystu. Chelsea jafnaði 2-2 með marki Lesley Ugochukwu og þar við sat.

Þrátt fyrir að hafa gert þessi dýrkeyptu varnarmistök segist Maresca ákveðinn í að halda í leikstíl sinn.

„Lið sem spila frá aftasta manni geta fengið svona mörk á sig en ég held að þú sért að fara að skora fleiri en þú færð á þig. Það er ýmislegt sem við þurfum að bæta en við byrjuðum undirbúninginn bara fyrir tveimur vikum. Í kvöld var mikilvægt að byrja að sýna einkenni liðsins og einkennin eru til staðar," segir Maresca.

Chelsea mun næsta leika æfingaleik gegn Skotlandsmeisturum Celtic um helgina.



Athugasemdir
banner