Jon Uriarte, forseti spænska félagsins Athletic Bilbao, sakar Barcelona um virðingarleysi í garð félagsins með því að ræða opinskátt um spænska landsliðsmanninn Nico Williams.
Williams hefur verið orðaður við Barcelona í allt sumar og hefur Joan Laporta, forseti Börsunga, ekki hikað við að tjá sig opinberlega um leikmanninn.
Þessi ungi og efnilegi kantmaður er með 60 milljóna evra kaupákvæði í samningi sínum sem Barcelona hefur ekki efni á að borga og því ólíklegt að hann gangi í raðir félagsins í sumar, sérstaklega þegar félagið getur ekki enn skráð Dani Olmo í hópinn vegna fjárhagsreglna La Liga.
Uriarte er afar óánægður með vinnubrögð Barcelona.
„Við erum rólegir. Það er eðlilegt að leikmenn okkar veki áhuga á markaðnum. Það er eðlilegt þegar það kemur að Nico, sem hefur stolið sviðsljósinu í þessum hvirfilbyl, en það margt sem mér líkar ekki eins og tildæmis virðingarleysið eða að áætla að eitthvað gerist sem er ekki að fara gerast. Það verður að gera þetta af virðingu,“ sagði Uriarte, sem mátti síðan til með að hrósa Hansi Flick, þjálfara Börsunga.
„Ég var hrifinn af því sem Flick sagði um Nico og að hann vildi ekki tala um leikmann sem væri samningsbundinn öðru félagi,“ sagði Uriarte.
Athugasemdir