Enski bakvörðurinn Ben Chilwell segir að það hafi tekið á bæði andlega og líkamlega að æfa einn í marga mánuði áður en hann komst loks frá Chelsea og samdi við Crystal Palace.
Chilwell var ekki í myndinni hjá Enzo Maresca eins og svo margir aðrir leikmenn og var frjálst að fara í janúarglugganum.
Englendingurinn þurfti meira og minna að æfa einn fyrri hluta tímabilsins, en fékk loks félagaskipti frá félaginu og gekk í raðir Palace á láni út tímabilið.
Bakvörðurinn segir að þetta hafi verið erfitt en á sama tíma gefið honum tækifæri til þess að koma sér aftur af stað og vera betri útgáfa af sjálfum sér.
„Flesta daga æfði ég einn. Maður er ekki með í hópnum fyrir leiki og þú bara bíður eftir tækifærinu til þess að fara eitthvert annað. Ef þú ferð í janúar þá ertu langt á eftir og verður að leggja inn mikla vinnu. Eina manneskjan sem er að missa af ert þú sjálfur.“
„Það er ekki auðvelt að æfa einn í marga mánuði en það eina sem hélt mér gangandi var að ég vissi að ég væri að fara í annað lið, hvort sem það hefði verið í janúar eða lok tímabils. Síðustu fjórir eða fimm mánuðir hafa gefið mér tækifærið til þess að endurstilla mig bæði andlega og líkamlega til að koma mér aftur af stað.“
„Það var margt sem spilaði inn í hjá Chelsea sem ég hafði enga stjórn á sem ég virði auðvitað en ég gat stjórnað því hvernig ég mætti til æfinga og hvernig ég æfði, hvort sem ég var einn eða með hópnum og það er endurspegun af mér,“ sagði Chilwell.
Athugasemdir