banner
   mán 26. apríl 2021 21:03
Brynjar Ingi Erluson
England: Leicester vann Palace - Iheanacho óstöðvandi
Kelechi Iheanacho og Brendan Rodgers gátu fagnað í kvöld
Kelechi Iheanacho og Brendan Rodgers gátu fagnað í kvöld
Mynd: EPA
Leicester City 2 - 1 Crystal Palace
0-1 Wilfred Zaha ('12 )
1-1 Timothy Castagne ('50 )
2-1 Kelechi Iheanacho ('80 )

Nígeríski framherjinn Kelechi Iheanacho reyndist hetja Leicester City er liðið vann Crystal Palace 2-1 í ensku úrvalsdeildinni í kvöld en sigurmarkið kom tíu mínútum fyrir leikslok.

Palace komst yfir eftir aðeins tólf mínútur er Wilfried Zaha skoraði af stuttu færi eftir skemmtilega sendingu frá Eberechi Eze. Zaha elskar að skora gegn Leicester en hann hefur skorað sex og lagt upp eitt í síðustu sjö leikjum Palace gegn liðinu.

Leicester-menn áttu nokkur færi í fyrri hálfleiknum en nýtingin var ekki upp á marga fiska. Staðan 1-0 í hálfleik en ræðan frá Brendan Rodgers virtist hafa skilað sér í þeim síðari.

Timothy Castagne jafnaði metin á 50. mínútu. Youri Tielemans átti góða sendingu á Iheanacho, sem hélt boltanum vel, áður en hann lagði hann út á Castagne sem þrumaði boltanum í netið.

Stuttu síðar fékk Jairo Riedewald gullið tækifæri til að koma Palace yfir en hann var kominn aleinn í gegn. Hollendingurinn var þó lengi að athafna sig áður en hann lagði boltann á Christian Benteke. Jonny Evans var þá mættur til baka til að tækla boltann í burtu.

Leicester nýtti sér þessi mistök Palace og kom sigurmarkið svo tíu mínútum fyrir leikslok. Evans átti langa sendingu fram völlinn á Iheanacho sem skoraði með frábæru skoti upp í þaknetið. Níu mörk í síðustu sjö leikjum hjá honum.

Heimamenn í þriðja sæti deildarinnar með 62 stig, fjórum stigum meira en Chelsea sem er í fjórða sætinu. Leicester að fara langleiðina með að bóka miða í Meistaradeildina á næstu leiktíð.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner