Crystal Palace vann sannfærandi 3-0 sigur gegn Aston Villa í undanúrslitaleik enska bikarsins á Wembley í dag. Félagið tryggði sér þar með farmiða í úrslitaleik bikarsins í þriðja sinn í sögunni, eftir tvo tapleiki gegn Manchester United í fortíðinni. Í þetta sinn mætir liðið annað hvort Manchester City eða Nottingham Forest í úrslitaleiknum.
Oliver Glasner þjálfari var kátur að leikslokum og hrósuðu bæði leikmenn og eigendur honum í hástert í viðtölum eftir lokaflautið.
„Strákarnir voru frábærir í dag, þeir sýndu gott hugarfar og stórkostlega frammistöðu. Við spiluðum okkar leik og misstum aldrei haus. Þetta var erfiður leikur gegn sóknarsinnuðum andstæðingum sem spiluðu með fjóra sóknarmenn á þröngu svæði í framlínunni," sagði Glasner.
„Við þurftum aðeins að breyta okkar leikstíl og það gekk upp. Sóknarmennirnir þrír áttu frábæran leik, þeir gáfu miðvörðum og miðjumönnum andstæðinganna engan tíma á boltanum. Fyrsta markið kom því við unnum boltann á góðum stað og annað markið eftir magnaða pressu frá Adam Wharton. Strákarnir voru frábærir."
Crystal Palace siglir lygnan sjó í ensku úrvalsdeildinni og á næst leik þar eftir rúma viku. Glasner segir að leikmenn fái fjögurra daga frí eftir þennan frábæra sigur.
„Ég er mjög þreyttur eins og er en leikmenn fá fjögurra daga frí eftir þennan sigur. Ég veit ekki hversu mikið ég mun fagna en ég vona að leikmenn njóti þess að vera komnir í úrslitaleikinn og fá verðskuldað frí."
Athugasemdir