
„Þetta var ótrúlega gaman. Loksins kom þetta hjá okkur. Við gerðum þetta vel í dag,“ sagði Karólína Jack, leikmaður HK/Víkings eftir 4-0 stórsigur á Grindavík.
Lestu um leikinn: HK/Víkingur 4 - 0 Grindavík
Liðin tvö berjast um að halda sæti sínu í deildinni og Karólína sagði að það hefði aldrei annað komið til greina en að taka þrjú stig.
„Við settum okkur það markmið fyrir leikinn að við þyrftum að vinna þennan leik. Annars væri það bara bein leið niður.“
Það var jafræði með liðunum í fyrri hálfleik en HK/Víkingar voru mun betri í þeim síðari. Karólína sagði að liðið hefði rætt saman í hálfleik um að gera betur og það gekk eftir.
„Við snérum bara við blaðinu. Ræddum það í hálfleik að við þyrftum að sýna okkur betur og gerðum það.“
Sjálf átti Karólína fantagóðan leik og skoraði tvívegis.
„Ég er bara sátt í dag sko,“ sagði markaskorarinn aðspurð um eigin frammistöðu og glotti.
Nú eru þrjár umferðir eftir af mótinu og Karólína er staðráðin í að sækja öll þau stig sem í boði eru til að tryggja HK/Víkingum áframhaldandi veru í deild þeirra bestu.
„Við eigum KR, Selfoss og ÍBV eftir, það eru 9 stig þar,“ sagði knattspyrnukonan efnilega að lokum en hægt er að horfa á allt viðtalið við hana í spilaranum hér að ofan.
Athugasemdir