Musiala efstur á blaði Man City - Sóknarmenn orðaðir við Arsenal - Colwill orðaður við Liverpool og PSG
   mán 26. september 2022 22:20
Ívan Guðjón Baldursson
Kane: Alltaf stórleikur gegn Þýskalandi á Wembley
Mynd: Getty Images

Harry Kane, fyrirliði enska landsliðsins, skoraði í 3-3 jafntefli gegn Þýskalandi í kvöld.


Kane, 29 ára, er þar með búinn að skora 51 landsliðsmark og er aðeins tveimur mörkum frá markameti Wayne Rooney.

Hann er ánægður með frammistöðuna gegn Þjóðverjum en þetta var síðasti leikur Englands fyrir HM í Katar.

„Við spiluðum virkilega vel í dag og vorum óheppnir að lenda tveimur mörkum undir. Við gerðum vel að halda haus, koma okkur aftur inn í leikinn og taka svo forystuna en því miður urðu önnur mistök til þess að þeir jöfnuðu," sagði Kane við Channel 4 að leikslokum.

„Við náðum ekki í sigurinn en getum verið stoltir af frammistöðunni. Við erum vel settir fyrir lokamótið í Katar. Ég er stoltur af strákunum sem þurfa núna að einbeita sér að næstu sex vikum félagsliðatímabilsins áður en við förum á HM."

Kane skoraði fimmta mark leiksins úr vítaspyrnu á lokakaflanum og hélt hann hefði tryggt sínum mönnum sigur. Hann fagnaði markinu innilega og var spurður út í það að leikslokum.

„Við vorum að spila við Þýskaland á Wembley. Það er alltaf stórleikur sama um hvaða keppni ræðir. Við mættum tilbúnir í þennan leik og sýndum hvers við erum megnugir. Þessi frammistaða er gífurlega mikilvæg fyrir hugarfarið og sjálfstraustið."

Gareth Southgate er landsliðsþjálfari Englendinga og hefur stýrt landsliðinu á tveimur stórmótum til þessa. Ljónin enduðu í fjórða sæti á HM 2018 og öðru sæti á EM 2020. Væntingarnar eru miklar og pressan einnig.

England endaði í neðsta sæti síns riðils í Þjóðadeildinni og mun leika í B-deildinni í næstu keppni. Lærisveinar Southgate fengu aðeins þrjú stig úr sex leikjum þar sem þeir náðu tveimur jafnteflum við Þýskaland og einu við Ítalíu á meðan þeir töpuðu báðum leikjunum gegn Ungverjalandi.


Athugasemdir
banner
banner