Gomes, Lookman og Kolo Muani orðaðir við Man Utd - Trossard fær launahækkun - Brownhill í ítalska boltann?
   þri 26. september 2023 11:23
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Düsseldorf
Leikurinn 2017 einn sá besti í sögunni - Ein fékk tíu og hinar fengu níu
Eftir leikinn 2017.
Eftir leikinn 2017.
Mynd: Fotbolti.net - Anna Þonn
Ná stelpurnar okkar að koma heiminum aftur á óvart?
Ná stelpurnar okkar að koma heiminum aftur á óvart?
Mynd: Jónína Guðbjörg Guðbjartsdóttir
Leikurinn í dag hefst 16:15.
Leikurinn í dag hefst 16:15.
Mynd: Jónína Guðbjörg Guðbjartsdóttir
Ísland og Þýskaland eigast í kvöld við í Þjóðadeild kvenna í Bochum í Þýskalandi.

Ísland hefur einu sinni lagt Þjóðverja að velli en það gerðist í Wiesbaden í Þýskalandi árið 2017. Sá leikur endaði með mögnuðum 2-3 sigri Íslendinga.

Íslenska kvennalandsliðið hafði ekki skorað gegn Þýskalandi í 30 ár áður en Dagný Brynjarsdóttir braut ísinn í leiknum með marki af stuttu færi á 15. mínútu. Þýskaland jafnaði fyrir hálfleik en Elín Metta Jensen endurheimti forystuna fyrir Ísland með frábæru marki. Dagný skoraði svo sitt annað mark og jók forystu Íslands í 3-1. Þýskaland náði að minnka muninn í lokin og pressaði stíft í blálok leiksins en tókst ekki að jafna.

Svo sannarlega einn fræknasti sigur sem íslenskt landslið hefur unnið frá upphafi.

„Þær spiluðu nánast fullkominn leik í dag og eiga hrós skilið," sagði Freyr Alexandersson, þáverandi landsliðsþjálfari Íslands, eftir leikinn.

Þetta var fyrsta tap Þýskalands í undankeppni í næstum því 20 ár. Þýskir miðlar voru harðorðir og sögðu tapið til skammar. Allir leikmenn Íslands fengu níu í einkunn eftir leikinn, nema Dagný Brynjarsdóttir. Hún fékk tíu. „Frábær frammistaða hjá Dagnýju sem er komin í sitt besta form. Sú er að uppskera eftir erfitt ár. Byrjar á að verða Bandaríkjameistari og fer svo fremst í flokki íslensku landsliðskvennanna í sögulegum sigri á Þýskalandi. Kom að öllum mörkum Íslands. Skoraði tvö og lagði upp það þriðja. Mögnuð," sagði í einkunnagjöfinni.

Fimm úr núverandi hóp í leiknum þá
Tveir leikmenn úr núverandi hóp byrjuðu leikinn en það voru Glódís Perla Viggósdóttir, landsliðsfyrirliði, og Ingibjörg Sigurðardóttir. Agla María Albertsdóttir, Sandra Sigurðardóttir og Sandra María Jessen, sem eru í hópnum núna, voru þá á bekknum í leiknum. Þær vita hvernig það er að vinna Þýskaland.

„Ég á bara góðar minningar frá 2017. Við þurfum að grafa djúpt og finna í hvaða standi við vorum þá andlega séð. Þetta var mikill liðssigur, það voru læti og geggjað gaman að spila. Ég vona að við fáum aftur þannig leik," sagði Ingibjörg í samtali við Fótbolta.net fyrr í þessari viku er hún var spurð út í leikinn frá 2017.

Glódís var einnig spurð út í leikinn í viðtali í gær. Hún gleymir honum aldrei.

„Ég held að ég muni aldrei gleyma þeim leik. Þetta var eitt það skemmtilegasta sem ég hef gert með landsliðinu. Þessi sigur var ekki eitthvað sem við eða einhver annar í heiminum bjóst við. Það gefur okkur ákveðna trú á því að við getum unnið Þýskaland. Auðvitað förum við inn í leikinn með þá trú, en við vitum að þetta verður gríðarlega erfitt verkefni," sagði Glódís. „Við verðum að geta stjórnað leiknum með varnarleik."

„Ég man eftir því að það var sturlaður blær yfir okkur, eldmóður inn í okkur eftir svekkjandi EM. Við vildum sanna að við værum betri en það sem við sýndum á EM og náðum það besta út úr öllum í liðinu. Það sem er magnaðasta við þann leik er að við skoruðum þrjú mörk. Við unnum ekki 1-0 eða þannig. Það var ótrúlega gaman að vera partur af þessu og það væri mjög gaman að fá að upplifa þetta aftur með þessum hóp."

Það væri mjög gaman að sjokkera heiminn á nýjan leik, en leikurinn í kvöld hefst klukkan 16:15 og er auðvitað í beinni textalýsingu hér á Fótbolta.net.

Sjá einnig:
Glódís rifjar upp sigurinn á Þýskalandi: Smá Diego Costa


Liðið þurfi að grafa djúpt - „Ég á bara góðar minningar frá 2017"
Glódís um misskilninginn: Það skipti kannski ekki höfuðmáli
Athugasemdir
banner
banner