Arnar Gunnlaugsson, þjálfari Víkings, segist ekki geta verið sáttari með að fá þá Davíð Örn Atlason og Karl Friðleif Gunnarsson til félagsins frá Breiðabliki. Leikmennirnir voru kynntir í dag og var Arnar til viðtals í kjölfarið.
„Ég er sammála Kára, þetta eru hægri bakverðir sem geta spilað fleiri stöðu og ég held að allir sem fylgjast með nútímafótbolta vita hversu mikilvægu hlutverki bakverðir sinna hjá sínum liðum. Við þurfum bara að fara yfir Chelsea, City og Liverpool. Þetta bíður upp á marga möguleika á að spila með þriggja manna vörn með sóknarsinnaða vængbakverði," sagði Arnar.
Þeir Ben Chilwell, Reece James, Trent Alexander-Arnold og Joao Cancelo hafa allir átt frábært tímabil sem bakverðir/vængbakverðir hjá ensku toppliðunum.
„Davíð og Kalli geta báðir spilað vinstri bakvörð og við erum að undirbúa það að Atli Barkarson sé mögulega á förum. Þá erum við búnir að tryggja okkur þjónustu bestu bakvarðanna á Íslandi."
Varstu ósáttur við Davíð að hafa farið til Breiðabliks síðasta vetur?
„Nei, alls ekki. Það er mjög gott á milli okkar. Við óskuðum honum alls hins besta. Núna kom upp óvænt tækifæri til að fá hann til baka og við erum alveg á því að ef að Víkingur er á lausu og hann A: getur eitthvað og B: er „fit" - þá eigum við að gera hvað sem í valdi okkar stendur til að fá svoleiðis leikmenn til baka. Sem betur fer hafði Breiðablik skilning á því, Davíð vildi koma og því var þetta fullkomlega sett upp."
Það er orðin hefð hjá Víkingi að ná í leikmenn og tilkynna þá rétt fyrir stórleiki. Víkingur mætir Val í Bose-mótinu á morgun.
„Já, ballið er bara að byrja aftur. Við höfum tapað þremur leikjum á árinu 2021 og við ætlum að halda okkar sigurgöngu áfram. Það er hrikalega mikil ábyrgð að vera í Víkingi, þú þarft að vinna alla leiki, sama í hvaða móti það er og hingað til hafa strákarnir svarað þeirri ábyrgð. Á morgun verður engin breyting þar á. Þetta er ekki æfingaleikur í okkar huga. Við ætlum að reyna vinna leikinn og reyna vinna þetta mót," sagði Arnar.
Viðtalið í heild má sjá í spilaranum að ofan.
Athugasemdir