Amorim gæti stigið frá borði ef slæmt gengi Man Utd heldur áfram - Bayern ætlar ekki að bjóða Sane hærri samning
   mán 27. febrúar 2023 14:54
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
„Þarft að vera eitthvað ruglaður til að spá þeim ekki tólfta sæti"
Lengjudeildin
Nenad Zivanovic, þjálfari Ægis.
Nenad Zivanovic, þjálfari Ægis.
Mynd: Fótbolti.net - Sævar Geir Sigurjónsson
„Ef þeir ná að byrja ágætlega þá held ég að þetta gæti græjast hjá þeim, en maður þarf að vera eitthvað ruglaður til að spá þeim ekki tólfta sæti," sagði Sigurður Heiðar Höskuldsson, aðstoðarþjálfari Vals, er rætt var um Ægi frá Þorlákshöfn í útvarpsþættinum Fótbolta.net

Ótímabær spá fyrir Lengjudeildina var opinberuð í þættinum en þar voru Ægismenn í neðsta sæti.

„Ægismenn lentu í þriðja sæti í 2. deild á síðustu leiktíð og áttu stórgott tímabil. Þeir unnu Fylki í bikarnum. Nenad Zivanovic, fyrrum sóknarmaður Breiðabliks, er að gera flotta hluti. Þetta er skemmtilegt lið að horfa á að mörgu leyti. En fyrir sjö dögum voru þeir að undirbúa sig fyrir 2. deild. Í besta falli eru þeir í ellefta sæti. Er þetta ekki eðlilegasti spádómur í sögu allra spádóma?" spurði Tómas Þór Þórðarson í þættinum.

KSÍ tók fyrir rúmri viku síðan ákvörðun um að Kórdrengir myndu ekki leika á Íslandsmótinu í sumar þar sem þátttökutilkynning þeirra var ekki fullnægjandi. Ægir fór því upp og mun leika í Lengjudeildinni í sumar. Félagið var að undirbúa sig fyrir 2. deild en fær núna allt aðra áskorun þegar stutt er í mót.

„Ef við tengjum þetta við mig hjá Leikni þegar við fórum upp í efstu deild, þá voru allir að spá okkur tólfta sæti. Það getur hjálpað. En hópurinn kemur seint saman hjá Ægismönnum. Þeir voru að spila við KH um daginn og töpuðu. Þeir voru að spila við ÍR í gær og töpuðu 6-1, 5-0 í hálfleik."

Ægir hefur átt erfitt uppdráttar á undirbúningstímabilinu og tapað fyrstu leikjum sínum í Lengjubikarnum með miklum mun. Þeir töpuðu fyrir 3-0 fyrir Augnabliki úr 3. deild og svo 6-1 fyrir ÍR úr 2. deild. Það eru ekki allir af erlendu leikmönnum liðsins komnir til landsins en þetta eru samt sem áhugaverð úrslit.

„Það er rosalega erfitt að dæma þetta akkúrat núna. Það eiga margir eftir að koma inn. Þeir hljóta að fá sér tvo eða þrjá í viðbót. Nenad er nýkominn heim að þjálfa liðið. Þetta gæti orðið algjör katastrófa, það gæti alveg gerst," sagði Siggi í þættinum en hann bætti við að það væri erfitt að sjá Ægi eiga möguleika í bestu lið deildarinnar eins og staðan væri núna. „Þetta verður mikil brekka."

Hægt er að hlusta á útvarpsþáttinn í heild sinni í spilaranum hér fyrir neðan.
Ægismenn fá allt aðra áskorun - Upp um deild í febrúar
Útvarpsþátturinn - Ótímabæra Lengjuspáin
Athugasemdir
banner
banner