Newcastle reynir við Guehi og Sesko - Sesko tilbúinn að fara til Newcastle - Liverpool skoðar Íra
   fim 27. júlí 2023 16:00
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Tilfinningarík stund í Laugardalnum - „Hann er hluti af okkar samfélagi"
Isaac er hluti af Þróttarafjölskyldunni.
Isaac er hluti af Þróttarafjölskyldunni.
Mynd: Jón Margeir Þórisson
Þróttari mikill.
Þróttari mikill.
Mynd: Jón Margeir Þórisson
Fær mikinn stuðning úr Laugardalnum.
Fær mikinn stuðning úr Laugardalnum.
Mynd: Jón Margeir Þórisson
Það var svo sannarlega falleg stund í Laugardalnum í gærkvöldi. Fjöldi fólks kom þá saman til að sýna Isaac Kwateng, vallarstjóra félagsins og leikmanni SR, stuðning.

Eins og var fyrst greint frá á Vísi þá lifir Isaac í ótta um að vera sendur úr landi. Isaac, sem er 28 ára, kom hingað til lands árið 2017 og hefur síðastliðið ár unnið hjá Þrótti.

Isaac fékk fyrst símtal árið 2019 um að hann yrði sendur úr landi en hann er hér á grundvelli tímabundinna dvalar- og atvinnuleyfa. Hann vonast til að fá íslenskan ríkisborgararétt en hann sagði í samtali við Vísi að það bíði sín ekkert í Gana þar sem hann er einkabarn og báðir foreldrar hans eru látnir.

„Ég leigi íbúð, borga skatta og geri allt sem venjulegur maður gerir. Svo ég veit ekki ástæðuna (fyrir því af hverju hann á ekki að fá að lifa eðlilegu lífi á Íslandi)," segir hann í samtali við Vísi en í Gana bíður hans erfitt líf. „Að vera á götunni í Gana er ekki öruggt."

Þetta er mjög sorglegt
Í gærkvöldi stóð Þróttur fyrir myndatöku í Laugardalnum til að sýna Isaac stuðning. „Félagið hefur auðgast að veru hans hér og okkur þætti vænt um að sjá ykkur sem flest mæta, helst í rauðu og styðja okkar mann. Nú er kominn tími á að fylla heilan fótboltavöll af rauðklæddum Þrótturum og manngæsku. Sýnum honum í verki að hann skipti máli og að okkur sé ekki sama," sagði í tilkynningu Þróttar.

María Edwardsdóttir, framkvæmdastjóri Þróttar, segir í samtali við Fótbolta.net að þetta hafi verið góð og tilfinningarík stund. Hún segir að Isaac sé hluti af Þróttarafjölskyldunni.

„Við vitum að hverfið og samfélagið í Þrótti styður við bakið á honum. Eftir að grein birtist í Mogganum og síðan viðtalið við hann á Vísi fannst okkur vanta ljósmynd sem sýnir hversu margir styðja hann. Það streymdi hingað fólk og þetta var geggjað. Ég held að margir hafi fengið kusk í augun," segir María og bætir við:

„Þetta var góð stund og tilfinningarík. Það er ekki að ástæðulausu að þetta er hjartað í Reykjavík."

Staðan er áfram ekki góð.

„Staðan er enn sú að hann á yfir höfði sér brottvísun. Þetta er mjög sorglegt því hann er búinn að festa hérna rætur og það er ekkert sem bíður hans í Gana. En það er ekkert í kerfinu sem gefur honum séns. Það sem er í gangi milli íslenska ríkisins og hans er að hann fær þessi símtöl og honum er hótað brottvísun. En á móti þá þiggja þeir pening af honum í gegnum tekjuskatt. Hann er í vinnu, á vini hérna og þetta er heimili hans. Hann er hluti af okkar samfélagi," segir María.

„Við getum ekki misst hann héðan, þetta er bæði falleg manneskja og við þurfum á honum að halda."


Athugasemdir
banner