banner
   mið 27. október 2021 11:33
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Fannst liðsfélagarnir fagna fullmikið eftir sigur gegn meisturunum
Alexandra eftir landsleikinn í gær.
Alexandra eftir landsleikinn í gær.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Alexandra Jóhannsdóttir, miðjumaður í íslenska landsliðinu og leikmaður Frankfurt, sat fyrir svörum á fréttamannafundi í gær eftir sigur gegn Kýpur. Alexandra skoraði eitt mark leik í leiknum og lagði upp eitt.

Lestu um leikinn: Ísland 5 -  0 Kýpur

Undir lok fundar var Alexandra spurð út í tímabilið til þessa með félagsliði sínu í Þýskalandi. Liðið vann meistarana í Bayern 3-2 á heimavelli í síðustu umferð fyrir landsleikina. Hvernig hefur þetta tímabil verið hjá þér?

„Það er búið að vera ágætt, væri alveg til í að vera búin að spila meira en þetta er allt að koma. Ég fékk sæti í byrjunarliðinu í síðasta leik, unnum þar 3-2, þannig vonandi að ég byrji í næsta leik líka," sagði Alexandra. Leikurinn var sá fyrsti hjá Alexöndru í byrjunarliði á þessu tímabili.

Hvernig var stemningin eftir góð úrslit á móti Bayern?

„Mér fannst þær fagna fullmikið, en jú jú, við fögnuðum ágætlega og eigum þær svo í bikarnum um næstu helgi [á laugardag] þannig það mátti ekki fagna of mikið."

Áttu í einhverjum samskiptum við Glódísi og Karólínu eftir leikinn?

„Já, já. Við vorum svo sem ekkert að ræða leikinn heldur bara að við værum að fara heim til Íslands," sagði Alexandra.

Frankfurt er í 3. sæti í þýsku Bundesliga með fimmtán stig eftir sex umferðir líkt og Bayern Munchen og Bayer Leverkusen.
Athugasemdir
banner
banner