Ralf Rangnick, þjálfari austurríska landsliðsins, segir að stjórn Manchester United hafi neitað honum um sex leikmenn sem hann ráðlagði félaginu að kaupa í janúar síðastliðnum.
Rangnick tók við sem stjóri United til bráðabirgða í desember síðastliðnum eftir að Ole Gunnar Solskjær var rekinn.
Það gekk ekki vel inn á vellinum en sérsvið Rangnick er að byggja upp lið. Náði hann góðum árangri sem yfirmaður fótboltamála hjá RB Leipzig til að mynda.
Hann fékk ekki að versla inn leikmenn í janúar þrátt fyrir að hafa stungið upp á alls konar leikmönnum.
Í samtali við Bild í Þýskalandi segir hann: „Það var ljóst að það þyrfti að styrkja liðið. Við ræddum leikmenn eins og Josko Gvardiol og Christopher Nkunku hjá RB Leipzig. Það voru raunhæf félagaskipti."
„Við töluðum líka um Alvaro Morata, Luis Diaz, Dusan Vlahovic og Erling Haaland. Það voru leikmenn sem voru enn á markaðnum á þeim tíma."
United ákvað að sleppa því að versla og beið til sumarsins þegar Erik ten Hag var ráðinn stjóri liðsins. Þá voru leikmenn eins Diaz, Haaland og Vlahovic allir búnir að skipta um félag.
Gvardiol og Nkunku eru enn hjá Leipzig en þeir hafa báðir verið sterklega orðaðir við Chelsea undanfarnar vikur.
Rangnick átti að fara í starf á bak við tjöldin hjá United eftir leiktíðina en hann var rekinn þar sem hann og Ten Hag náðu ekki saman.
Athugasemdir