Guimaraes, Silva, Van Persie, Yamal, Gil, Giroud og fleiri í slúðurpakkanum
   þri 28. mars 2023 08:00
Ívan Guðjón Baldursson
Clarke: Spánverjar þurfa að spila aðeins undir getu
Mynd: Getty Images
Mynd: EPA

Skotland tekur á móti Spáni í toppslag A-riðils undankeppni Evrópumótsins 2024 í kvöld. Bæði lið eru með þrjú stig eftir 3-0 sigra gegn Kýpur og Noregi í fyrstu umferð.


Steve Clarke, landsliðsþjálfari Skota, viðurkennir að Spánverjar eru með sterkari lið en telur sína menn eiga góða möguleika á að ná úrslitum gegn stórþjóðinni.

„Þetta verður allt öðruvísi heldur en leikurinn gegn Kýpur. Þegar við fáum marktækifæri gegn Spáni þá verðum við að nýta þau ef við ætlum að fá eitthvað úr þessum leik," sagði Clarke fyrir leikinn.

Spánverjar virkuðu ekki sérlega sannfærandi í sigri sínum gegn Noregi í fyrstu umferð þrátt fyrir góðar lokatölur. Það er mikil endurbygging í gangi hjá Spáni, þar sem það vantar breidd í ýmsar stöður og er nýbúið að skipta um landsliðsþjálfara.

„Þeir munu halda boltanum mikið og við verðum að vera agaðir, duglegir, einbeittir og vel skipulagðir til að eiga möguleika gegn þeim. Við þurfum fyrst og fremst að vera þolinmóðir þegar þeir eru með boltann og nýta öll tækifæri sem við fáum. Það er mikilvægt að vera hugrakkir, beinskeyttir og öruggir með boltann því annars geta þeir valtað yfir okkur."

Spánverjar eru taldir talsvert sterkari heldur en Skotar en Clarke segist hafa trú á jákvæðum úrslitum.

„Ég fer inn í hvern einasta leik til að sigra hann og hef gert það síðan ég var 17 ára gamall. Ég held ekki að þú getir verið atvinnumaður í fótbolta og farið inn í leik með hugarfarið um að nú sért þú að fara að tapa. Við vitum hvað við þurfum að gera í þessum leik, við þurfum að berjast eins og skepnur og sýna um leið mikinn aga og skipulag í varnarleiknum. Við þurfum að spila virkilega, virkilega vel.

„Spánverjar þurfa líklega að spila aðeins undir getu til að við eigum raunhæfa möguleika, en ef það gerist þá getum við náð í jákvæð úrslit. Þetta er ekki flóknara en það."

Skotar unnu Kýpur 3-0 á laugardaginn en sóknarmaðurinn Che Adams meiddist. Því er búist við að Lyndon Dykes, sóknarmaður QPR, leiði fremstu víglínu.


Athugasemdir
banner
banner
banner