„Mér fannst þetta bara vera flottur leikur hjá okkur. Þær voru samt alveg að ógna í síðari hálfleik fannst mér en heilt yfir þá fannst mér við spila alveg frábærlega og sérstaklega í fyrri hálfleik." sagði Agla María Albertsdóttir, fyrirliði Breiðablik eftir 4-1 sigurinn á Þór/KA og liðið er Lengjubikarmeistarar kvenna árið 2025.
Lestu um leikinn: Breiðablik 4 - 1 Þór/KA
Breiðablik fór inn í hálfleik með 2-0 forskot og hefði forskotið geta verið stærra þegar liðin gengu til búningsherbegja.
„Það má alveg segja það. Við fengum talsvert fleiri færi en mörkin segja til um en það sem ég tek út úr þessu er að við erum að koma okkur í færi. Við erum að spila frábærlega á móti hörku liði. Þær eru búnar að vera í topp 5 síðustu ár þannig þetta er bara núna þessi leikur og meistarar meistaranna og svo er mótið að byrja þannig það er bara alvaran."
Breiðablik og Valur mætast í meistarar meistaranna eftir tæpar tvær vikur og er það síðasta general prufa liðanna fyrir alvöruna en Besta deildin byrjar 15.apríl.
„Það er bara frábært að fá þessa leiki. Þetta eru svona aðeins líkari leikir, þessi úrslitaleikur og svo meistarar meistaranna og við horfum á þetta sem alvöru leiki og við lítum á það þannig."
„Mér finnst vera tilhlökkun í hópnum, við höfum sjaldan verið með jafn öflugan hóp og núna. Við erum með góða leikmenn í öllum stöðum, líka á bekknum og eigum eftir að fá nokkrar heim frá Bandaríkjunum þannig við erum bara mjög vel settar fyrir sumarið."