Olise eftirsóttur - Sádi-Arabía til í að galopna veskið fyrir Van Dijk - Margir orðaðir við Man Utd
banner
   þri 28. maí 2024 16:45
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Vissi að hann myndi enda í Vestra - „Sammi sagði mér að hann myndi klára dæmið"
Pétur er 27 ára framherji sem hefur skorað 90 mörk í 259 KSÍ leikjum.
Pétur er 27 ára framherji sem hefur skorað 90 mörk í 259 KSÍ leikjum.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Öflugur með hælnum.
Öflugur með hælnum.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Samúel Samúelsson er formaður Vestra.
Samúel Samúelsson er formaður Vestra.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Pétur Bjarnason lék með Fylki á síðasta tímabili. Það var í fyrsta skiptið á ferlinum sem hann lék ekki með Vestra (áður BÍ/Bolungarvík).

Framherjinn ræddi við Fótbolta.net og var spurður hvernig tilfinningin hefði verið að spila ekki með Vestra í fyrra.

Mikill munur á aðstöðunni
„Það var svolítið öðruvísi, ég var að prófa í fyrsta skiptið að fara í nýtt umhverfi, kynnast nýjum strákum og það var áhugavert að koma í annan klúbb. Ég held að ég hafi lært mikið af því og að þetta hafi verið gott fyrir mig."

„Það er smá munur að vera í Vestra og í Fylki. Þegar ég var í Fylki þá var ég alltaf heima hjá mér (ekki öll þessi ferðalög). Svo er það aðstöðumunurinn, það hefur ekki verið nein aðstaða hér, erum búnir að æfa á klaka í vetur. Hjá Fylki ertu með upphitað gervigras og með líkamsrækt á sama stað og klefinn er. Þú mætir bara í klefann og það er búið að þvo af þér. Það er verið að reyna komast á sama stað hérna fyrir vestan og það er allavega eitthvað að gerast í því."


Pétur vinnur hjá EFLU á Ísafirði. Hann er að ljúka háskólanámi, á eina önn eftir í byggingafræði. Það varð ljóst nokkuð snemma í vetur að hann væri fluttur vestur aftur og myndi ekki spila með Fylki í sumar. Það tók þó smá tíma að klára félagaskiptin og á tímapunkti var í óvissu hvort að Pétur myndi yfir höfuð spila í sumar.

Varst þú alltaf viss um að þú myndir spila fótbolta árið 2024?

„Ég pældi smá í því, hugleiddi aðeins hvað ég vildi gera. Ég var ekkert ákveðinn að fara frá Fylki eftir tímabilið og það gekk vel seinni hluta tímabilsins. Mér fannst ég vera meira að komast inn í hlutina, fannst þeir hafa trú á mér. Að fara inn í annað tímabil með Fylki hljómaði líka vel."

„Svo kom það upp, ræddum það aðeins fjölskyldan, hvort það væri möguleiki að fara vestur og tókum ákvörðun um að gera það. Ég hitti Samma í einhverri ferðinni vestur og við spjölluðum aðeins saman. Hann sagði að þetta væri geranlegt. Ég lét þá Fylki vita af því að ég væri búinn að taka þá ákvörðun að fara vestur."


Hvernig leið þér með þetta í vetur á meðan ekki var búið að klára félagaskiptin?

„Sammi sagði mér frá upphafi að hann myndi klára dæmið. Þegar hann segir eitthvað svoleiðis þá trúi ég því. Ég var frekar rólegur yfir þessu allan tímann, nennti ekki að spá í þessu of mikið og var bara að einbeita mér að því að æfa. Ég vissi að ég myndi enda í Vestra, en þetta dróst kannski aðeins of langt fyrir minn smekk. Ég skildi alveg báða aðila (Fylki og Vestra) að einhverju leyti."

Vestri er í fyrsta sinn í efstu deild, síðast áttu Vestfirðingar lið í efstu deild í fóbolta árið 1983.

„Það hafði klárlega einhver áhrif á ákvörðunina að liðið væri komið upp. Það var stemning hérna og það er einhver fegurð í því að vera partur af þessu."

Pétur og kærasta hans fluttu vestur í kjölfarið á því að þau eignuðust barn síðasta haust. Það togaði í þau að fjölskylda hans og kærustunnar búa fyrir vestan.

„Svo eru margir bestu vinir mínir í liðinu. Þetta einhvern veginn small saman," sagði Pétur að lokum.
Athugasemdir
banner
banner
banner