„Mér líður mjög vel að hafa unnið sigurinn, náð í þessi þrjú stig. Ég er fyrst og fremst ánægður með leikinn og leik minna manna. Þeir spiluðu vel og það var það sem var fyrir mestu," sagði Þorvaldur Örlygsson, þjálfari Stjörnunnar, eftir útisigur gegn KR í kvöld.
Það var smá miðvarðapúsl í leiknum í dag hjá Stjörnunni. Elís Rafn Björnsson kom inn í hjarta varnarinnar en maður er vanur að sjá hann spila í bakverðinum. Elís lék með Björn Berg Bryde í byrjun leiks en Björn meiddist í fyrri hálfleik. Þá kom Eyjólfur Héðinsson niður í miðvörðinn. Toddi segist hafa verið tilbúinn með þessa lausn ef það þyrfti að breyta til í hjarta varnarinnar.
Kannski svona auðvelt að spila hafsent
„Við höfum verið ágætlega staddir með hafsenta. Daníel (Laxdal) meiddist á læri um daginn og hefur verið frá síðan. Brynjar (Gauti Guðjónsson) er í banni. Björn kom inn um daginn og Elís kom inn í dag. Eyjó kemur niður, klókur fótboltamaður. Það sést að hann getur rúllað boltanum og kannski er svona auðvelt að spila hafsent, ég veit það ekki."
Fimm leikir án taps, ellefu stig. Hvað finnst þér hafa verið að smella að undanförnu?
Getustig, hugarfar og litlir hlutir
„Úrslitin fyrst og fremst. Við spiluðum ekkert illa á móti Víkingi og KA á heimavelli. Það voru jafnir leikir sem duttu þeim megin. Hlutirnir voru ekki að detta með okkur. Í dag erum við mjög góðir og hlutirnir detta með okkur. KR átti færi í stöðunni 1-0, það eru oft litlir hlutir sem detta með manni. Fyrst og fremst er það getustig leikmanna og hugarfar þeirra sem hefur breytt þessu í það að þeir eru að spila vel."
Mun aldrei gleymast
Var auðvelt að reyna gleyma þessum atburðum sem áttu sér stað undir lok leiks gegn KA?
„Það mun aldrei gleymast. Ég ætla rétt að vona að það muni aldrei gleymast og menn læri af því, bæði þeir sem eru fyrir utan og við líka. Við verðum að sætta okkur við það, eins ósanngjarnt og heimskulegt og atvikið var en svona er þetta víst. Það er ekki hægt að endurtaka leiki hversu fáránlegt sem það var," sagði Toddi.
Viðtalið í heild má sjá hér að ofan.
Athugasemdir