Erkifjendur á eftir Branthwaite - Atlético á eftir Greenwood - Tekur Potter við Man Utd?
banner
   sun 28. september 2025 22:00
Ívan Guðjón Baldursson
Howe: Getum ekki notað framherjaskiptin sem afsökun
Mynd: EPA
Mynd: EPA
Eddie Howe þjálfari Newcastle var svekktur eftir tap á heimavelli gegn Arsenal í dag. Newcastle tók forystuna í fyrri hálfleik og leiddi allt þar til á lokakaflanum, þegar gestunum tókst að skora tvö mörk eftir tvær hornspyrnur.

Martin Ödegaard, sem byrjaði leikinn á bekknum, var líflegur og lagði upp sigurmarkið fyrir Gabriel með góðri hornspyrnu seint í uppbótartíma.

„Það er mjög sárt að fá tvö svona mörk seint á sig á heimavelli. Við verðum að horfa til baka á þennan leik og viðurkenna að við vorum ekki uppá okkar besta. Það vantaði ekkert upp á vinnuframlagið, en gæðin voru ekki alveg til staðar. Þeir voru betra liðið, þeir unnu návígin og voru líkamlega sterkari heldur en við," sagði Howe.

„Nick Pope var frábær en það sem réði úrslitum eru hornspyrnurnar, það er sérstaklega svekkjandi. Mér fannst Ödegaard gera gæfumuninn. Það eru litlu smáatriðin sem kostuðu okkur í dag, strákarnir virtust vera svoldið þreyttir strax frá byrjun en þeir lögðu allt í sölurnar."

Howe var spurður út í vítaspyrnudómana sem urðu ekki, þar sem Arsenal vildi fyrst vítaspyrnu fyrir brot á Viktor Gyökeres áður en Newcastle vildi fá vítaspyrnu vegna hendi innan vítateigs, en ekkert var dæmt.

„Maður er alltaf í höndum VAR-kerfisins og verður að treysta þeirra ákvörðunum. Ein fór gegn okkur og ein með okkur, svona er þetta stundum."

Newcastle heimsækir Royale Union SG til Belgíu á fimmtudaginn í Meistaradeild Evrópu og verður Tino Livramento ekki með eftir að hafa farið af velli á börum í dag.

„Við verðum að einbeita okkur að næsta leik og bæta upp fyrir þetta sársaukafulla tap. Það er gott að eiga annan leik strax til að ná upp sjálfstrausti. Við vitum ekki nóg um meiðslin hjá Tino en þetta lítur ekki vel út."

Howe var einnig spurður út í framherjamálin.

„Við fengum færi til að skora fleiri mörk en nýttum þau ekki. Við getum ekki notað framherjaskiptin okkar sem afsökun, við verðum að vinna leiki. Það var frábært að sjá Nick (Woltemade) skora og við fengum önnur færi til að bæta mörkum við.

„Nick og Yoane (Wissa) eru gjörólíkir leikmenn og auðvitað vorum við ekki að fara að finna nýjan Alexander Isak, en við getum fundið leiðir til þess að nýta framherjana sem við höfum. Nick er kominn með tvö mörk í þremur leikjum."

Athugasemdir