Man City gerir tilboð í Olmo - Barcelona reynir líka að fá spænska landsliðsmanninn - Wan-Bissaka vill ekki fara til West Ham
   þri 28. nóvember 2023 13:26
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Áfram horfa erlend félög til Stjörnunnar - Tveir fæddir 2008 á förum
Tómas Óli á reynslu hjá Sociedad.
Tómas Óli á reynslu hjá Sociedad.
Mynd: Aðsend
Margir leikmenn Stjörnunnar að vekja athygli á sér.
Margir leikmenn Stjörnunnar að vekja athygli á sér.
Mynd: Jónína Guðbjörg Guðbjartsdóttir
Gunnar Orri Olsen er mjög spennandi leikmaður sem fæddur er árið 2008. Hann er U17 landsliðsmaður sem hefur vakið áhuga hjá danska stórliðinu FCK. Alls á hann að baki tólf leiki fyrir yngri landsliðin.

Samkvæmt heimildum Fótbolta.net er nánast frágengið að Gunnar gangi í raðir danska félagsins þegar hann verður sextán ára í mars á næsta ári. Gunnar Orri lék með 2. og 3. flokki Stjörnunnar í sumar og var í leikmannahópnum þegar Stjarnan heimsótti KA í Bestu deildinni.

Hann er ekki eini leikmaðurinn sem fæddur er árið 2008 sem er á förum því Tómas Óli Kristjánsson er einnig á förum til Danmerkur. Tómas, sem er líkt og Gunnar U17 landsliðsmaður, á að baki átta leiki fyrir yngri landsliðin.

Tómas hefur farið á reynslu til Benfica í Portúgal og Real Sociedad á Spáni. Hann er þó ekki á leið þangað, heldur að ganga í raðir félags í Danmörku.

Bæði Gunnar og Tómas voru í byrjunarliði liðs 2. flokks Stjörnunnar þegar það tryggði sér Íslandsmeistaratitilinn í haust.

Stjarnan hefur verið duglegt í því að selja leikmenn erlendis undanfarin ár. Alex Þór Hauksson fór til Öster, Óli Valur Ómarsson fór til Sirius, Daníel Freyr Kristjánsson fór til Midtjylland, Guðmundur Baldvin Nökkvason fór til Mjällby og Ísak Andri Sigurgeirsson til Norrköping.

Mikið hefur verið fjallað um áhuga erlendis frá á Eggerti Aroni Guðmundssyni og eru taldar miklar líkur á því að hann fari erlendis í komandi félagaskiptaglugga. Þá er áhugi á ungum leikmönnum eins og Kjartani Má Kjartanssyni, Adolf Daða Birgissyni, Róberti Frosta Þorkelssyni, Helga Fróða Ingasyni, Örvari Loga Örvarssyni og Jóhanni Árna Gunnarssyni.


Athugasemdir
banner
banner