Dagur Örn Fjeldsted var í dag tilkynntur sem nýr leikmaður FH en hann kemur á láni frá Breiðabliki og er FH með kauprétt á leikmanninum.
Dagur varð tvítugur í gær, er U21 landsliðsmaður sem á að baki 21 leik í efstu deild og hefur í þeim skorað tvö mörk.
Hann ræddi við Fótbolta.net í dag.
Dagur varð tvítugur í gær, er U21 landsliðsmaður sem á að baki 21 leik í efstu deild og hefur í þeim skorað tvö mörk.
Hann ræddi við Fótbolta.net í dag.
„Ég er mjög stoltur að vera kominn í svona stórt félag og er virkilega spenntur fyrir þessu tímabili," segir Dagur.
„Ég er orðinn leikmaður FH vegna þess að ég vildi meiri spilatíma og FH lagði mikinn metnað í að fá mig sem mér leist mjög vel á."
„Síðan fannst mér ég líka þurfa að spila meira út af því að mig langar að vera partur af U21 landsliðinu í sumar."
„Það var áhugi frá einhverjum liðum en FH var það félag sem heillaði mig mest af því að okkar sjónarmið passa vel saman."
„Það sem heillar mig mest við FH hvað þetta er stór og flottur klúbbur með spennandi stefnu."
Hvernig var aðdragandinn?
„Hann var góður og talsverður, FH var búið að vera með áhuga í svolítinn tíma. Ég talaði mikið við Davíð Viðars sem hjálpaði mér að taka þessa ákvörðun og ég stökk á þetta." Davíð Þór Viðarsson er yfirmaður fótboltamála hjá FH.
Dagur var á láni hjá Grindavík fyrri hluta tímabilsins 2023 og hjá HK seinni hluta síðasta tímabils. Hvernig sá Dagur undirbúningstímabilið í ár og aðdragandann að Íslandsmótinu; hafði hann tilfinningu fyrir því að hann fengi eitthvað hlutverk hjá Breiðabliki?
„Undirbúningstímabilið var bara flott en á sama tíma erfitt, ég hafði það á tilfinningunni að ég væri alveg með hlutverk í liðinu en ekki nægilega stórt fyrir minn smekk."
Hvert er markmiðið með FH?
„Mig langar bara að koma FH aftur þar sem þeir eiga að vera sem er í toppbaráttunni, mín ætlun er að spila vel, það er klárt," segir Dagur sem er fenginn sem kantmaður sem getur spilað báðum megin.
Hvernig leggst það í þig að vinna með þjálfurunum Heimi Guðjóns og Kjartani Henry?
„Ég er mjög spenntur fyrir því að vinna með þeim og Davíð líka , þetta eru gæjar sem hafa afrekað mikið og geta kennt mér margt," segir Dagur.
Hann gæti spilað sinn fyrsta leik í FH búningnum næsta sunnudag þegar Valur kemur í heimsókn á Kaplakrikavöll.
Athugasemdir