Branthwaite á lista Man Utd - Lampard vill ræða við Rangers - Messi ætlar að klára ferilinn í Argentínu
   mán 29. maí 2023 11:46
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Miðjumaður Vals frá í heilt ár - „Fór allt sem gat farið í hnénu"
watermark Hanna Kallmaier
Hanna Kallmaier
Mynd: Fótbolti.net - Jónína Guðjörg Guðbjartsdóttir
Miðjumaðurinn Hanna Kallmaier mun ekki spila meira á þessu ári en þetta staðfesti Pétur Pétursson, þjálfari Vals, í samtali við Fótbolta.net eftir bikarleik gegn Þrótti um liðna helgi.

Hanna meiddist illa seint í leik gegn Stjörnunni í Bestu deild kvenna fyrir um tveimur vikum síðan. Hanna meiddist eftir tæplega 80 mínútna leik og var borin af velli fimm mínútum seinna.

Fótbolti.net greindi frá því eftir leikinn að tímabilið væri líklega búið hjá Hönnu en óttast var að hún væri með slitið krossband og einnig með slitið liðband í hnénu.

Núna hefur það fengist staðfest. „Hún er frá alveg í heilt ár. Það fór allt sem gat farið í hnénu á henni. Það er vont að missa góða leikmenn, en það koma nýir leikmenn inn í staðinn og þær þurfa að standa sig," sagði Pétur eftir leikinn gegn Þrótti.

Hanna er Þjóðverji, hún er 29 ára gömul og gekk í raðir Vals frá ÍBV í vetur.

Hún kom fyrst til Íslands fyrir tímabilið 2020 og lék alls 62 leiki í öllum keppnum fyrir ÍBV áður en hún gekk í raðir Vals. Hún var búin að vera í byrjunarliði Íslands- og bikarmeistaranna í fyrstu fjórum umferðunum.

Það er mikið áfall fyrir Val að missa hana þar sem hún hafði byrjað fyrstu fjóra deildarleiki liðsins á tímabilinu. Valur er á toppi Bestu deildarinnar með tíu stig en liðið féll úr leik í Mjólkurbikarnum gegn Þrótti.
Pétur ósáttur við reglur KSÍ: Eini möguleikinn að fara niður í 4. flokk
Athugasemdir
banner
banner
banner