Man Utd ætlar að reka Ten Hag - Hver tekur við? - Tuchel hefur áhuga á starfinu
banner
   fös 29. júlí 2022 12:10
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Vardy tapaði meiðyrðamálinu gegn Rooney
Rooney fjölskyldan.
Rooney fjölskyldan.
Mynd: Getty Images
Jamie Vardy og Rebekah.
Jamie Vardy og Rebekah.
Mynd: Getty Images
Rebekah Vardy, eiginkona enska fótboltamannsins Jamie Vardy, tapaði meiðyrðamáli sem hún höfðaði gegn Coleen Rooney, eiginkonu Wayne Rooney sem er markahæsti leikmaður í sögu Manchester United og enska landsliðsins.

Coleen sagði í október 2019 frá því að hún hefði með klækjabrögðum komist að því að Rebekah væri að leka upplýsingum af lokaðri Instagram síðu sinni til slúðurblaða.

Rebekah hefur ávallt neitað sök og ákvað hún að fara í meiðyrðamál gegn Coleen til þess að fá bætur og sanna sakleysi sitt. Það tókst ekki hjá henni.

Við dómsuppkvaðningu í dag sagði dómarinn í málinu að afar líklegt væri að Caroline Watt, fyrrum umboðsmaður Vardy, hefði lekið upplýsingum til slúðurblaða og Rebekah hafi vitað af því og hvatt hana til þess.

Rebekah er sögð hafa kunnað illa Coleen og líklegt er að hún hafi grætt fjárhagslega á því að hafa lekið fréttum um hana til götublaðsins The Sun.

En það mun enginn græða fjárhagslega á þessum réttarhöldum. Málskostnaður fyrir þær báðar verður rúmlega 1 milljón punda og mun Coleen, sem er sigurvegarinn í þessu máli, aðeins fá um 70 prósent af því til baka. Þær voru hvattar til að gera upp málið fyrir utan dómstóla en hlustuðu ekki á það, og vildu að niðurstaðan yrði fengin svona.

Coleen er sigurvegarinn og kemur betur út úr þessu máli, en í raun er enginn sigurvegari - allavega ekki fjárhagslega.
Athugasemdir
banner
banner